Sindragata 4: byggingin mun minnka

Sindragata 4A. Deilan snýst um aðra blokk sem reisa á á sömu lóð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir augljóst að seinni byggingin á lóðinni Sindragötu 4A muni minnka þegar reikna þurfi svalir inn í nýtingarhlutfallið. Hún segir að næsta skref sé að framkvæmdaraðili þurfi að skila inn til byggingarfulltrúa nýjum hönnunargögnum og uppdráttum í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem kveðinn var upp á mánudaginn.

Nefndin felldi úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A. Þar er fyrir blokk og var bætt við annarri á lóðinni, sem hefur fengið nafnið Sindragata 4B.

Kærendur sögðu í málflutningi sínum fyrir úrskurðarnefndinni að byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefði samþykkt byggingarmagn upp á 1.340,1 fm sem væri 245,5 fm eða 22% meira en samþykkja mátti. Telja kærendur að til byggingin Sindragata 4B verði í samræmi við deiliskipulag þurfi að breyta uppdráttunum og minnka byggingarmagn um að lágmarki 245,5 fm, en það byggingarmagn telur um tvær íbúðir af þeim níu sem fyrirhugað er að byggja.

Kærendur voru íbúar á Sindragötu 4A, Aðalstræti 8 og 10.

DEILA