Reykhólahreppur: vantar fé til viðhalds vega og girða þá

Reykhólar.

Í erindi sveitarstjórnar Reykhólahrepps til Vegagerðarinnar segir að í sveitarfélaginu séu víða vegir sem þurfa meiri þjónustu en verið hefur og er lýst yfir áhyggjum af því að markmiðum um greiðar samgöngur og umferðaröryggi vegfarenda sé ekki náð.

Sérstaklega er það vegarkaflinn frá Bjarkalundi að Gilsfjarðarbrú sem velur áhyggjum og óskar sveitarstjórnin eftir fundi með Vegagerðinni til að ræða lausnir sem geta aukið umferðaröryggi.

Vegrið við Laxá

Sveitarstjórn telur að ákveðinn farartálmi hafi verið búinn til við það að lengja vegrið við Laxá. Yfir vetrartímann verður brúin mjög snjóþung og skapar hættu í umferðinni þegar fólk ætlar sér að komast í gegnum skaflinn. Sveitarstjórn óskar eftir því við Vegagerðina að fundnar verði aðrar leiðir til að brúin verði ekki farartálmi til framtíðar.

Girðingar meðfram vegum

Sveitarstjórn hvetur bændur og vegagerðina til að fara í samstillt átak um að girða af veginn frá Þorskafirði að Gilsfjarðarbrú. Mörg óhöpp verða á ári hverju vegna þess að ekið er á sauðfé. Bændur sem búa við Vestfjarðaveg 60 eru í hættu við að sinna störfum sínum, hvort sem það eru gangandi vegfarendur eða bændur á vinnutækjum segir í erindi sveitarstjórnar. Stór hluti vegarins er girtur af nú þegar en mikilvægt sé að klára verkið til að tryggja öryggi vegfarenda og bænda sem stunda búrekstur við Vestfjarðaveg 60.

Karlseyjarvegur 606

Slitlag á veginum, sem er frá þorpinu að höfninni, er illa farið og burðarlag ekkert. Áætlað var að fara í endurbætur á veginum sumarið 2024 en vegna ástands á slitlagi á öðrum vegum í sveitarfélaginu verða framkvæmdir ekki á árinu. Sveitarfélagið hefur í góðri samvinnu við Vegagerðina staðið að miklum endurbótum á höfninni og mikilvægt er að góður vegur sé til staðar til að þjónusta höfnina og tryggja öryggi starfsfólks sem þar vinnur og annarra þjónustuaðila.

Vetrarþjónusta

Sveitarstjórn ítrekar fyrra erindi sitt er varðar vetrarþjónustu. Segir hún að mikilvægt sé að vetrarþjónusta sinni þörfum samfélagsins, sérstaklega í tengslum við skólaakstur og atvinnu fólks. Vetrarþjónusta þurfi að taka mið af því að vegir séu færir áður en að skólaakstur hefst og sé ekki lokið fyrr en skólaakstri er lokið. Þannig hafi því miður ekki verið háttað undanfarna vetur og ítrekað hafa börn mætt of seint í skólann á meðan beðið er eftir mokstri.

Fyrirhugað er að fundur sveitarstjórnar með Vegagerðinni verði síðar í sumar.

DEILA