Rannsókn á afráni þorskseiða í Seyðisfirði

Örsmátt rafeindamerki er grætt í kviðarhol fisksins.

Glöggir Vestfirðingar hafa tekið eftir nokkrum fjölda flotbelgja í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða hlustunardufl vegna rannsókna á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Vísindamenn við rannsóknasetrið hafa áður notað hlustunardufl til að rannsaka áhrif hitastigs, og fleiri þátta, á ferðir ungra þorska og ufsa um Seyðisfjörð. Anja Nickel ofl. hafa nýlega birt vísindagrein í Journal of Fish Biology um hluta þeirrar rannsóknar. Greinina má lesa hér: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/jfb.15850

Fjölmörgum spurningum er þó enn ósvarað og í þessu nýja verkefni er meginmarkmiðið að skilja afrán og lifun þorsks á öðru ári. Íslendingar eiga mikið undir nýliðun í þorskstofninum en nýliðun þorsks ræðst af fjölmörgum líffræði- og umhverfisþáttum. Margir þættir geta því haft samverkandi áhrif á þann fjölda einstaklinga sem lifir af í hverjum árgangi þorsks. Til að skilja og mæla afrán í Seyðisfirði eru seiðin merkt með örsmáu rafeindamerki sem gefur til kynna ef seiðið er étið. Afdrif þorskseiða sem eru merkt með hljóðmerkjum eru líka metin með öðrum hætti, t.d. er hægt að sjá þegar merkt seiði eru étin af selum þar sem hitastig merkisins fer yfir 30°C. Rannsóknin er á ábyrgð Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns rannsóknasetursins, hluti af doktorsverkefni Fia Finn, og unnin í samstarfi við Ingibjörgu Jónsdóttur, vísindamann hjá Hafrannsóknastofnun.

Hlustunarduflin verða fjarlægð í nóvember en starfsfólk rannsóknasetursins hvetja Vestfirðinga til að hafa augun hjá sér fyrir duflum sem kunna að losna og reka á land, duflin eru smá og svört en öll merkt með símanúmeri. Þá vilja aðstandendur rannsóknarinnar koma á framfæri kærum þökkum til landeiganda í Seyðisfirði sem hafa verið einkar liðlegir við að auðvelda aðgang að firðinum og gera þessar rannsóknir mögulegar.

DCIM\100GOPRO\GOPR1562.

Hlustunardufl.

DEILA