Myndbirtingin af lögregluaðgerðum í Bolungarvík ámælisverð

Bolungarvík

Siðanefnd Blaðamanna­fé­lags Íslands hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að frétta­vef­ur­inn Vís­ir hafi brotið gegn siðaregl­um fé­lags­ins með með birt­ingu mynd­ar af húsi i Bol­ung­ar­vík með frétt um lög­regluaðgerð á staðnum, sem birt var á vef Vís­is 27. maí og telur siðanefnd­in brotið ámæl­is­vert.

Kærandi er sonur manns sem fannst látinn á heimili sínu í Bolungarvík. Hin kærða mynd er
skjáskot af vefsíðunni ja.is af húsi í Bolungarvík, sem birt var á Vísi kl.23:00.


Í kærunni kemur fram að lögregla hafi komið kl.22:53 á heimili kæranda og tilkynnt honum að faðir hans og eiginkona hafi fundist látin á heimili sínu í Bolungarvík. Lögreglumaðurinn hafi farið um kl.23:15.

Um kl.23:30 hafi kærandi séð frétt á vefmiðinum Vísi þar sem fram kom að lögreglan væri að rannsaka andlát í húsi við Hlíðarveg í Bolungarvík og mynd birt af húsinu.
Kærandi kveður að við Hlíðarveg séu 7 hús og fljótgert sé að fletta því upp hverjir búa í húsinu.
Kærandi segir að flestir aðstandendur hafi frétt af andlátinu í gegnum Vísi enda hafi þeir þekkt húsið um leið. Kærandi segist hafa hringt í Vísi rétt fyrir miðnætti og kvartað yfir fréttaflutningi og myndbirtingu, en aðeins verið sagt að það væri leitt að þetta færi fyrir brjóstið á fólki.

Myndin hafi ekki verið tekin úr birtingu fyrr en undir hádegi daginn eftir. Kærandi segir myndbirtinguna persónurekjanlega, blaðamennirnir virði ekki friðhelgi einkalífsins, engir almannahagsmunir styðji myndbirtingu og tillitssemi sé ekki gætt í fréttinni.

Í umfjöllun Siðanefndar segir að umrædd mynd sé skjáskot af ja.is og hefur því ekkert sjálfstætt fréttagildi. Að matiSiðanefndar var það ósanngjarnt gagnvart kæranda og öðrum aðstandendum að birta myndina á þeim tíma sem það var gert, í ljósi alvarleika málsins. Myndin var tekin úr birtingu daginn eftir, en þess ekki getið í fréttinni að myndin hafi verið tekin út, né beðist velvirðingar á því. Að mati Siðanefndar eru það ekki sanngjörn eða heiðarleg vinnubrögð.

DEILA