Messað á Eyri í Seyðisfirði

Frá messu í Eyrarkirkju á síðasta ári. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær var messað í bændakirkjunni á Eyri í Seyðisfirði í Ísafjarðarkirkju. Barði Ingibjartsson í Súðavík sagði að góð mæting hafi verð, alls mættu 33 messugestir og var boðið upp á kaffi og veitingar utandyra eftir messuna. Barði sagðist hafa verið undirbúinn fyrir að hafa kaffið í kirkjunni ef veðrið hefði verið óhagstætt. Sr Fjölnir Ásbjörnsson messaði. Marta Kristín Pálmadóttir, sem ættuð er frá Uppsölum í Seyðisfirði, lék á harmóniku í kirkjukaffinu.

Eyrarkirkja var byggð 1866 og er því 158 ára gömul og heyrir undir ákvæði húsafriðunatlaga. Endurbætur og viðgerðir eru því háðar samþykkti Minjastofnunar og sagði Rannveig Ólafsdóttir að stofnunin gerði kröfu um að viðurkenndir iðnaðarmenn sæu um framkvæmdir.

Móðir Rannveigar er eigandi að Eyri sem er ábyrgðarmaður kirkjunnar. Að sögn Rannveigar varð kirkjan fyrir töluverðum skemmdum í óvirði í febrúar 1991 , þegar hún skekktist á grunni. Töluverðu hefur verið kostað til í viðgeðir utanhúss og fengist til þess, að hluta til, styrkir úr húsafriðunarsjóði. Fyrirhugaðar eru viðgerðir á kirkjunni innanhúss.

Uppfært 12.8. kl 23:02. Fellt var út orðið ekki í kröfum Minjastofnunar til hæfni iðnaðarmanna sem var ofaukið í upphaflegri frétt. Krafist er að þeir séu viðurkenndir til viðgerðanna.

DEILA