Matvælastofnun kærir aðdróttun um mútuþægni

Hrönn ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Forstjóri og tveir starfmenn Matvælastofnunar hafa sent kæru á hendur einstaklingi til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Kæran er send vegna greinar sem birtist á vefmiðli Vísis, visir.is, 16. júlí síðastliðin. Í greininni segir að starfsfólk stofnunarinnar skaki sér í skrifstofustólum svo skrjáfi í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafi stungið í vasa þeirra um leið og þeir skrifi upp á rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar.

Í frétt á vefsíðu Matælastofnunar segir að stofnunin vinni faglega að umsóknum um rekstraleyfi til fiskeldis og veiti rekstrarleyfi til fiskeldis ef umsóknir uppfylla skilyrði laga og reglugerða, samkvæmt hlutverki stofnunarinnar. Forstjóri stofnunarinnar og starfsmenn sem komu að meðferð og útgáfu rekstrarleyfisins telja að með framkominni aðdróttun sé alvarlega vegið að heiðri og æru þeirra og því verði ekki komist hjá öðru en að kæra skrifin til lögreglu.

Bæjarins besta vakti athygli á umræddri grein Esterar Hilmarsdóttur sem heitir Af Glyðrugangi eftirlitsstofnana og leitaði eftir viðbrögðum Hrannar Ólínu Jörundsdóttur, forstjóra Matvælastofnunar. Þar sagði Hrönn :

„Við erum jafnframt að skoða rétt okkar og hvort höfundur hafi með þessum ásökunum brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga varðandi að saka opinbera starfsmenn um refsiverða háttsemi. Við tökum þessu máli mjög alvarlega.“

Nú hafa þessi ummæli veri kærð til lögreglu.

Á sama tíma voru fleiri sem sóttu að Matvælastofnun. Þar á meðal var Jón Kaldal, talsmaður IWF, íslenska náttúruverndarsjóðsins í viðtali á Vísi vék hann að persónulegri ábyrgð starfsmanna Mast á leyfisveitingu til Arnarlax í Ísafjarðardjúpi og sagði orðrétt:

„Full ástæða er til að velta fyrir sér persónulegri ábyrgð starfsmanna MAST, sem tóku þessa ákvörðun og skrifa undir leyfið, ef slys verða vegna staðsetninga sjókvíanna á siglingaleiðum þar sem Samgöngustofa segir að þær megi ekki vera. Stofnanir hafa ekki sjálfstæðan vilja. Það er fólk sem stýrir þeim og hlýtur að þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna.“

Lögmaðurinn Katrín Oddsdóttir, sem barist hefur gegn laxeldií Ísafjarðardjúpi sagði í sama viðtali að hún taki undir með Jóni sem bendir á að það sé fólk á bak við hverja ákvörðun og það eigi ekki á láta það viðgangast að gefa út leyfi í andstöðu við lög.

„Því ber einfaldlega skylda sem opinberir starfsmenn til að gera betur en svo.“ ef haft orðrétt eftir Katrínu.

DEILA