Kjörbúðin lækkar matarkörfuna

Kristín Gunnarsdóttir.

Í síðustu viku lækkaði verð á 640 vörum í verslunum Kjörbúðanna og nemur lækkunin í mörgum tilfellum tugum prósenta frá fyrra verði segir í frettatilkynningu frá Samkaup. Ákveðið var að fjölga þeim vörum sem merktar eru sérstaklega með grænum punkti, en það eru vörur sem seldar eru á verði sambærilegu við það sem býðst í lágvöruverðsverslunum.

„Markmiðið með rekstri Kjörbúðarinnar er alltaf að bjóða viðskiptavinum okkar upp á vöruúrval, þjónustu og verð sem mætir þeirra þörfum og kröfum. Við reynum því eftir fremsta megni að bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili og vera með samkeppnishæf verð,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúða og Kjörbúða hjá Samkaupum.

„Kjörbúðir eru staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins og flestar eru í byggðarlögum þar sem fáar aðrar verslanir starfa. Við viljum gera það sem þarf til að halda Kjörbúðunum í þessum byggðarlögum gangandi. Verslun er mikilvægur innviður í hvaða byggðarlagi sem er. Þær skapa atvinnu, en það er líka mikilvægt fyrir lífvænleika samfélaga að þar sé hægt að kaupa nauðsynjavörur án þess að keyra til þess lengri leið í aðra bæi. Þetta þekkir best það fólk sem býr á stöðum þar sem verslun hefur lagst af.“

Kristín bendir á að frá áramótum hafi verið unnið að því að færa verð margra nauðsynjavara í Kjörbúðinni að því verði sem býðst í lágvöruverðsverslunum eins og Nettó. „Þessar vörur eru sérmerktar með grænum punkti í verslunum Kjörbúðarinnar og viðbrögðin hafa verið mjög góð. Að fjölga vörutegundunum í þessum flokki er vissulega kostnaðarsamt fyrir okkur, en er rökrétt næsta skref í þessari vegferð sem við höfum verið á síðustu misseri.“

Kristín segir að Samkaup hafi trú á því að sú ákvörðun að lækka verðið á vörukörfu viðskiptavina muni skila sér í aukinni veltu og meiri sölu. „Þá bindum við sannarlega vonir við að þetta verði birgjunum hvatning til að taka þátt í vegferðinni með okkur og að þannig getum við boðið jafnvel enn betri verð fyrir viðskiptavini.“

Kristín segir starfsfólk Kjörbúðanna spennt fyrir þessum breytingum og hlakki til að sjá viðbrögð viðskiptavina. „Það er alltaf eitthvað að gerast hjá okkur. Næst á dagskránni eru vítamíndagarnir og svo heilsudagar i september og þar eru alltaf góð tilboð til viðbótar við þessar lækkanir sem við kynnum núna.“

Samkaup rekur rúmleg 60 smávöruverslanir víðsvegar um landið. Viðskiptavinir Samkaupa geta valið á milli helstu verslunarkeðja félagsins. Þær eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúð og Iceland.

DEILA