Kerecisvöllurinn: Vestri fær ÍA i heimsókn í dag

Skagamenn koma í heimsókn vestur í dag og leika við karlalið Vestra í Bestu deildinni á Kerecis vellinum á Torfnesi Ísafirði. Leikurinn hefst kl 18.

Fyrir leik mun Arctic Fish, einn af aðalstyrktaðilum Vestra, bjóða upp á grillaðan lax á Murikka pönnu. Tilvalið að taka kvöldmatinn á vellinum og styðja svo Vestra til sigurs.

Breytingar hafa orðið á liði Vestra síðustu daga. Sveinn Sigurður Jóhannesson markvörður sem er nýkominn til félagsins, varð fyrir því óláni að slíta hásin á æfingu á mánudaginn og verður því frá út tímabilið. En Sveinn var fenginn til að fylla skarð Marvins Darra sem er að setjast á skólabekk.Til að fylla skarð Sveins hefur félagið samið við Benjamin Schubert frá Danmörku. Benjamin er 27 ára og með víðtæka reynslu úr fyrstu og annari deild í Danmörku og efstu deild í Færeyjum.

Þá er Tarik Ibrahimagić farinn.

Klásúla í samning Tariks við Vestra hefur verið virkjuð sem gerir félaginu ómögulegt að halda í þennan öfluga leikmann. Tarik kom til liðs við Vestra um mitt tímabil í fyrra og hjálpaði liðinu að komast upp í Bestu deildina.

Stefnan var að Tarik myndi klára tímabilið en því miður er raunin önnur. Samúel Samúelsson segir að full vinna sé farin í það að finna öfluga leikmenn og styrkja liðið fyrir lokaátökin.

DEILA