Knattspyrna: Vestri mætir KR á morgun

Karlalið Vestra fær KR í heimsókn á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði á morgun. Leikurinn hefst kl 14.

Þetta er næstsíðasti heimaleikur Vestra áður en deildinni verður skipt í tvennt og spilaðar 5 viðbótarumferðir. Síðasti heimaleikurinn er gegn Fylki. Báðir þessir leikir eru mikilvægir í botnbaráttunni.

KR er í 9. sæti og Vestri í 10. sæti og í fallsætunum eru HK og Fylkir. KR er með 18 stig, Vestri og HK með 14 stig hvort og Fylkir er með 13 stig.

Í síðasta leik átti Vestri góðan leik á útivelli gegn Íslandsmeisturum Víkings og náði jafntefli. Þar áður gerði Vestri jafntefli við Skagamenn, sem eru í 4. sæti deildarinnar. Þessi úrslit sýna að liðið getur staðist bestu liðum deildarinnar snúning.

Þegar umferðunum 22 verður lokið hefst seinni hluti Íslandsmótsins. Sex efstu liðin skipa um Íslandsmeistaratitilinn og spila öll innbyrðis og áunnin stig í þeim leikjum bætast við stigin sem fengust í leikjunum 22.

Neðri sex liðin spila svo einnig innbyrðis fimm leiki hvert um það hvaða lið falla í Lengjudeildina. Í þeim leikjum er líklegt að Vestri fái tvo heimaleiki og spili þrjá útileiki. Það verður svo heildarstigatalan sem ræður úrslitum.

Það er engum blöðum um það að fletta að næstu heimaleikir eru lykilleikir fyrir Vestra, sem ætlar sér að halda sæti sínu í Bestu deildinni.

Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra sagði í samtali við Bæjarins besta að enn væri þrír leikmenn á meiðslalista og óvíst hvort þeir gætu verið með á morgun, en það styttist í þá. Það eru þeir Pétur Bjarnason, Andri Rúnar Bjarnason og Jeppe Gjerdsen.

DEILA