Íslandsmót í hrútadómum á Sauðfjársetri á Ströndum

Verðlaunahafar á síðasta móti.

Árlegt Íslandsmeistaramót í hrútadómum verður haldið á Sauðfjársetrinu í Sævangi á Ströndum þann 18. ágúst næstkomandi og hefst keppnin kl. 14. Undirbúningur fyrir helgina gengur vel.

Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Venjulega eru keppendur um 50 og koma víða að. Fjölmargir mæta svo til að sjá á keppendur sýna snilli sína.

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að ráðunautur fer fyrir dómnefnd  sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendurnar einar og hyggjuvitið að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Á síðasta ári stóð Jón Stefánsson frá Broddanesi á Ströndum uppi sem sigurvegari og er núverandi Íslandsmeistari. Strandamönnum þykir alltaf nokkuð gott þegar heimafólk vinnur titilinn og munu því væntanlega reyna eins og þeir geta til að halda honum áfram. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár og þess fyrir utan eru veglegir vinningar í báðum flokkum.

Á þessu ári er Beint frá býli dagurinn haldinn samhliða hrútaþuklinu í Sævangi frá kl. 13-16. Þar munu framleiðendur verða með kynningu og sölu á sínum vörum. Gert er ráð fyrir að að um 8-10 framleiðendur taki þátt í markaðnum og verður fjölbreytt úrval vara til sölu. Nánari upplýsingar um þann viðburð, má finna á heimsíðunni: https://www.beintfrabyli.is/

Sævangur í Tungusveit.

DEILA