Ísafjarðarbær: selur 20 íbúðir til Brákar íbúðafélags

Íbúðir við Túngötu á Suðureyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað í morgun að selja 20 íbúðir úr Fasteignum Ísafjarðarbæjar til Brákar íbúðafélags hses. Um er að ræða 11 íbúðir við Túngötu á Suðureyri og 9 íbúðir við Fjarðargötu 30 á Þingeyri.

Stofnvirði íbúðanna á Þingeyri er kr. 126.880.000 og á Suðureyri er stofnvirðið kr. 200.300.000. Samtals er það 327 m.kr. Staða lána á Fjarðargötu 30 á Þingeyri kr. 101.041.602 og á Suðureyri 166.999.194 kr., samtals 267 m.kr.

Stofnframlag sveitarfélaga er 12% af stofnvirði íbúðanna. Hlutur Ísafjarðarbæjar í verkefninu á Þingeyri er því 15.225.600 kr. og vegna verkefnisins á Suðureyri 24.036.000 kr. Samtals er stofnframlag Ísafjarðarbæjar vegna kaupa Brákar íbúðafélags á íbúðunum 20 um 39 m.kr.

Í minnisblaði Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra til bæjarráðs segir að það hafi verið stefna sveitarfélagsins að minnka umfangs eignasafnsins og sé þessi aðgerð liður í þeirri vegferð. Brák íbúðarfélag er húsnæðissjálfseignarstofnun sem stofnuð var árið 2022 af sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni sem næst ekki með litlum húsnæðissjálfseignastofnunum með fáar íbúðir í rekstri. Þá segir að Brák sé rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

DEILA