Ísafjarðarbær: fær 8 m.kr. styrk vegna ljósleiðarvæðingar

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Ísafjarðarbær hefur samþykkt að taka við 8 m.kr. styrk frá Fjarskiptasjóði vegna átaksins Ísland ljóstengt vegna 101 staðfanga í sveitarfélaginu.

Þau áform voru kynnt þann 2. júlí af hálfu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla,- iðnaðar- og
nýsköpunarráðherra að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026 með því að bjóða fastan styrk í gegnum Fjarskiptasjóð 80.000 kr. á hvert ótengt staðfang. Styrkurinn fer eingöngu til sveitarfélaga sem ráðstafa honum.

Styrkurinn er vegna jarðvinnu eingöngu, þ.e. verkþætti sem að jafnaði eru unnir af jarðvinnuverktökum, t.a.m. gerð lagnaleiða, lagningu röra, niðursetningu jarðvegsbrunna og götuskápa.

Styrkhæf staðföng eru á heimilisföngum, þar sem skráð eru eitt eða fleiri lögheimili, sem ekki eru tengd með ljósleiðara og engin áform eru um slíka tengingu á markaðslegum forsendum samkvæmt niðurstöðu áformakönnunar Fjarskiptastofu fyrr á árinu.

Sveitarfélögum og fjarskiptafyrirtækjum er það í sjálfsvald sett að innheimta tengigjöld hjá notendum og tengja önnur staðföng, s.s. atvinnuhúsnæði og veitumannvirki, þó fjarskiptasjóður meti þau ekki styrkhæf.

Í minnisblaði sviðsstjóra  umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjaráð kemur fram að í sumarleyfi bæjarráðs/bæjarstjórnar samþykkti sviðsstjóri styrkveitinguna með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

DEILA