Hvalárvirkjun: sérstök sjálfbærniúttekt i haust

Yfirlitsmynd af virkjunarsvæði. Glæra frá kynningarfundinum.

Vesturverk ehf hefur samið við sænska fyrirtækið Sweco Internationa AB sem tekur að sér að framkvæma í haust svonefnda Hydropower Sustainability Standard úttekt, HSS, sem ætluð er til þess að tryggja að verkefnið sé undirbúið á þann hátt að það gagnist ólíkum hagaðilum og lágmarki neikvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Sjálfbærnistaðall er það nefnt í gögnum Vesturverks.

Úttektin í haust mun styrkja verkefnið og um leið vera leiðbeinandi um hvað betur megi faraáður en eiginlegar framkvæmdir hefjast segir í kynningu fyrirtækisins.

Þrír matsmenn frá Sweco í Svíþjóð verða á landinu dagana 2.-11. september 2024 til að gera athuganir á vettvangi og funda með ólíkum hagaðilum s.s. hönnuðum, eftirlitsaðilum, hreppsnefnd og fleirum.

HSS er viðbót við mat á umhverfisáhrifum einkum hvað varðar sjálfbærni og ástandsmælingar, samfélagsáhrif og samfélagsábata, samskipti og upplýsingagjöf. HSS matið metur einnig þróun verkefnisins frá því að umhverfismatið fór fram.

Fram kom á kynningarfundi Vesturverks í Árneshreppi með íbúum á mánudaginn að gert er ráð fyrir að sækja um virkjunarleyfi snemma næsta árs og hefja undirbúningsframkvæmdir. Virkjunarframkvæmdir hefjast 2026 og virkjunin verði gangsett og hefji fullan rekstur 2029/2030.

DEILA