Hvalárvirkjun: 350 ársverk

Í kynningargögnum Vesturverks ehf um Hvalárvirkjun kemur fram að ársverkin yfir verktímann eru áætluð 350. Gert er ráð fyrir um 70 manns á svæðinu að vetri til og að sumarlagi verða allt að 200 manns á svæðinu. Á hluta framkvæmdatímans bætast við verktakar og starfsfólk Landsnets.

Framkvæmdir hefjast að vori og gert ráð fyrir að það verði 2026. Við stíflugerð og mannvirki á yfirborði verður eingöngu unnið yfir sumarið.

Að hausti, tveimur og hálfu ári frá upphafi framkvæmda, er stefnt að því að gangsetja virkjunina. Eftir gangsetningu verður Eyvindarveita byggð og verklok áætluð að hausti, þremur og hálfu ári frá upphafi framkvæmda.

Áætlunin miðast við að undirbúningsframkvæmdir hefjist strax á næsta ári. Lagfæra þarf aðkomuvegi og leggja slóða eða vegi að stíflustæðum og undirbúa svæði fyrir vinnubúðir. Gera þarf rannsóknir með jarðvegsborunum í eða við áætluð stíflumannvirki og könnun á lausum jarðefnum og efnum í steinsteypu uk þess að brúa Hvalá og leggja rafmagnsstofn frá dreifikerfi OV til Ófeigsfjarðar, ásamt ljósleiðara.

Vinnubúðir verða reistar í námunda við munna aðkomuganga og væntanlega verða einnig minni búðir uppi á heiðinni.
Í endanlegum vinnubúðunum verður svefnaðstaða fyrir um 200 manns, hreinlætisaðstaða, mötuneyti, verkstæði, geymslur, lagersvæði og skrifstofur.

Þegar virkjunin verður komin í rekstur er gert ráð fyrir að einn starfsmaður sinni eftirliti og minni háttar
viðhaldi.

DEILA