Helgina 10.-11. ágúst, hélt Hjólreiðadeild Vestra árlegt enduro og ungdúró mót sitt á Ísafirði. Að þessu sinni var mótið bæði stigamót í bikarkeppni Hjólreiðasambands Íslands sem og Íslandsmót. Á mótinu voru því krýndir Íslandsmeistarar í öllum aldursflokkum.
Keppendur Vestra stóðu sig með mikilli prýði á mótinu en alls voru 8 Vestra krakkar skráðir til leiks í ungdúró keppninni og 2 fullorðnir í enduro.
Adrían Uni Þorgilsson varð Íslandsmeistari í U-11 flokki drengja, Dagur Ingason í U-13 flokki drengja og Sara Matthildur Ívarsdóttir í U-13 flokki stúlkna. Fleiri Vestra krakkar komust á verðlaunapall því Julian Númi Bechtloff Heiðarsson vann til bronsverðlauna í U-11 drengja.