Hjólaskíðamót á Ísafirði á morgun, laugardag

Ísafjarðarhöfn. Þangað hjólar skíðafólkið.

Á morgun, laugardag á að halda fyrsta hjólaskíðamótið í seinni tíð á Ísafirði. Allir bestu skíðamenn landsins eru í bænum vegna samæfingar og munu taka þátt. Allir þátttakendur velkomnir óháð getu.

Snorri Einarsson er skíðagönguþjálfari og hann fékk tíu manna landsliðshóp til æfinga í gær og verður hópurinn hér næstu daga við æfingar.

Markmiðið með hjólaskíðamótinu er að prófa eitt skipti með það í huga að hafa það árlegan viðburð. Keppnisbrautin er 11 km og einungis er keppt í þessari einu vegalengd.

Brautarvalið miðast við að vera sem allra minnst á götum, að brekkur og beygjur séu ekki krappar, að ástand malbiks sé gott. Það verður hópstart. Keppt er með hefðbundinni aðferð, til að auðvelda framúrtökur og mætingar á stígum.

Ekki eru gerðar kröfur um ákveðna gerð af hjólaskíðum eða dekkjum.

Ekki verða flögur heldur verður tímataka með skeiðklukkum. Engin drykkjarstöð. Skemmtiferðaskip með 3000 farþega verður í höfn og mögulega verða gangandi á stígunum.

Reynt verður að manna brautarvörslu á tveimur stöðum; í Krók og við snúning, auk starts/marks.

Þátttaka er ókeypis og skráning á Facebook-viðburðinum eða á staðnum.

DEILA