Grunnskóli Hólmavíkur : húsnæði tekið í notkun eftir miklar endurbætur

Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir ávarpar gesti við skólasetninguna og opnun húsnæðisins. Myndir: Þorgeir Pálsson.

Í gær var skólasetning Grunnskóla Hólmavíkur og starfsemi skólans hófst aftur í húsnæði skólans eftir viðamiklar endurbætur síðustu tvö ár vegna myglu sem upp kom síðustu tvö ár og kosta um 300 m.kr.

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri segir að þetta hafi verið mikill gleðidagur í sögu Strandabyggðar.  Það var að hans sögn talsverður fjöldi foreldra og íbúa sem sótti skólasetninguna, auk nemenda og starfsfólks. 

„Við hönnun skólans var það haft að leiðarljósi, að hafa líflega liti, skapa ferskleika og gleði innanhúss.  Einhverjum kann að þykja litagleðin nokkur, en þá er rétt að hafa í huga að þetta er skóli fyrir börnin okkar.  Þau eru lífleg og litaglöð.  Þetta er þeirra umhverfi og þar á að ríkja gleði og ferskleiki.  Að auki erum við að gleðjast og fagna upprisu þessa skóla og það gerum við með litagleði.  Litirnir eru í regnboganum, í loftinu, augunum, og allt í kring um okkur.  Leyfum okkur að njóta og gleðjast, því þessi gleðidagur á að vara lengi.“

Að sögn Þorgeir er enn er nokkur vinna eftir við hluta skólans og eins verður skólalóðin hönnuð og vonandi endurgerð næsta sumar.

Í pistli á vefsíðu sveitarfélagsins segir Þorgeir að það eigi margir „þakkir skildar fyrir þennan árangur og þennan mikilvæga áfanga í sögu Strandabyggðar; nemendur, starfsmenn skólans og sveitarfélagsins, verktakar, foreldrar, íbúar og margir aðrir.  Þetta er án efa með allra stærstu og umfangsmestu verkefnum þessa sveitarfélags ef ekki það stærsta.  Við skulum vera stolt yfir því að hafa komið að þessu verkefni.“

Anddyri skólans eftir endurbæturnar.

Ein skólastofan.

DEILA