Fornminjadagur á Hrafnseyri

Uppgröftur í túninu á Hrafnseyri.

Árlegur fornminjadagur verður haldinn á Hrafnseyri sunnudaginn 25. ágúst. Þátttaka í deginum er ókeypis og eru allir velkomnir. Dagskráin hefst kl. 14:00. En einnig verður boðið upp á fonleifaskóla barnanna frá kl. 13.

Boðið verður upp á leiðsögn og kynningu á fornminjum á Hrafnseyri, þar sem nú stendur yfir fornleifarannsókn, og á Auðkúlu, þar sem grafið hefur verið upp landnámsbýli.

Dagskráin hefst á stuttri kynningu í kapellunni. Að því búnu er gengið um Hrafnseyri, þar sem staldrað verður við á minjastöðum og komið við á uppgraftarsvæði sem unnið hefur verið við í sumar. Að því loknu verður farið til Auðkúlu fyrir þá sem vilja skoða minjasvæðið þar.

Sýningin Landnám í Arnarfirði verður einnig opin. Sýningin var opnuð þann 16. júní síðastliðinn í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins og 1150 ára sögu byggðar á Íslandi. Á sýningunni er fjallað um fornleifarannsóknir í Arnarfirði og sýnt úrval gripa frá landnámsöld. Gripirnir eru úr fornleifauppgröftum á Hrafnseyri og Auðkúlu.

Börnum gefst kostur á að prófa að grafa í fornleifaskóla barnanna á Hrafnseyri. Hann verður opinn frá kl. 13-17, og geta bæði ungir sem aldnir spreytt sig undir leiðsögn fornleifafræðinga.

DEILA