Fiskvinnslan Íslandssaga hf: hagnaður 64 m.kr.

Fiskvinnslan Íslandssaga hf. nemendur við Grunnskóla Ísafjarðar í heimsókn.

Fiskvinnslan Íslandssaga hf á Suðureyri var rekin með 64 m.kr. hagnaði á síðasta ári samkvæmt framlögðum ársreikningi fyrir 2023. Reiknaður tekjuskattur er 7 m.kr. og hagnaður að honum frádregnum er 57 m.kr.

Heildartekjur fiskvinnslunnar voru rúmir tveir milljarðar króna, 2.073 m.kr. Laun og tengdur kostnaður varð 430 m.kr. og stöðugildin 42.

Eignir félagsins voru bókfærðar um áramóin á 665 m.kr. og skuldir 538 m.kr. Eigið fé nam því 127 m.kr. og er eiginfjárhlutfallið 19%.

Stjórn félagsins segir í skýrslu sinni að rekstur síðasta árs hafi verið betri en árið á undan. Tekjur jukust um 22% og hagnaður jókst um 23,4 mkr. Stjórnendur telja horfur góðar og ef ekki kemur bakslag vegna utanaðkomandi atburða þá verði áframhaldandi bati í rekstri félagsins.

Hagnaður er yfirfærður til næsta árs og ekki verður greiddur arður til hluthafa.

Hluthafar eru þrír, Norðureyri ehf á 73%, Hvetjandi ehf 19% og Flugalda ehf 8%.

Stjórnina skipa Guðni Albert Einarsson, formaður, Jón Páll Hreinsson og Jón Þór Gunnarsson.

DEILA