Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum.
Mest er það á Vestfjörðum þar sem framleidd voru 36,3 þúsund tonn árið 2023.
Næst mest er eldið á Austfjörðum, en þar voru framleidd um 5,2 þúsund tonn á árinu 2023. Það er töluvert minna en síðustu ár, en þann samdrátt má rekja til afleiðinga af útbreiðslu ISA-veirunnar árið 2021 og viðbrögðum vegna hennar .
Þriðja stærsta svæðið er Reykjanes þar sem rúmlega 5,2 þúsund tonn af eldifiski voru framleidd á árinu 2023. Á Reykjanesi ræður bleikjan ríkjum en lax er langstærsti hluti fiskeldis á Vestfjörðum og Austfjörðum.
Rétt er að hafa í huga að umfang fiskeldis byggist ekki eingöngu á fjölda tonna sem framleidd eru á hverjum stað. Bleikja og lax eru að sjálfsögðu misstórir fiskar, framleiðsluferli er mismunandi og Suðurland er langstærst í klaki og seiðaræktun fyrir aðrar eldisstöðvar. Þar að auki er kynbótastöð fyrir bleikju á Norðurlandi vestra og eystra, sem sér öllum öðrum bleikjustöðvum fyrir hrognum.