Menningarmiðstöðin Edinborg stendur fyrir ókeypis jass tónleikum í hádeginu í dag í Bryggjusalnum. Sumarviðburðasjóður Hafna Ísafjarðarbæjar styrkir tónleikahaldið.
Djasstrompetleikarinn Hannes Arason hefur undanfarin þrjú ár stundað nám í Stokkhólmi, þar sem hann stofnaði hljómsveitina Hannes Arason Kvartett. Nú fær hann Svíana hingað til landsins og þau héldu tónleika í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu í gær og aftur verða tónleikar í dag.
Hannes Arason Kvartett spilar frumsamda, framsækna djasstónlist sem leggur áherslu á samspuna með djúpri hlustun. Hljómsveitin skapar stóra kontrasta með flæðandi dýnamík og þéttskrifuðum útsetningum. Taktfastir rytmar, ómþýðir hljómar og frjáls spuni takast jafnt á í tónlistinni sem kemur sífellt á óvart. Hannes Arason – trompet, flügelhorn Oskar Nöbbelin – píanó Amanda Karström – kontrabassi Filip Öhman – trommur Hannes Arason er upprennandi trompetleikari á íslensku og sænsku tónlistarsenunni. Hann gaf út sína fyrstu plötu, Frífólk, í febrúar 2024, þar sem hann blandaði frjálsum spuna saman við áhrifum frá sænskri og íslenskri þjóðlagatónlist. Í tónlist sinni leggur hann áherslu á frjálsan spuna, tilraunamennsku og samruna mismunandi tónlistarstefna.
Hannes útskrifaðist vorið 2024 með bakkalárgráðu í djasstrompetleik frá Kungl. Musikhögskolan i Stockholm og áður kláraði hann burtfarapróf í rytmískum trompetleik frá Menntaskóla í tónlist.