Í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal verður fimmtudagskvöldið 22. ágúst kl. 20:00 sögustund með Margréti S. Höskuldsdóttur. Hún gaf árið 2022 út bókina Dalurinn.
Fjallað verður meðal annars um bókina Dalurinn, og sögusviðið, en bókin gerist í Keldudal í Dýrafirði, og hvernig það er að feta fyrstu sporin á rithöfundabrautinni.
Einnig verður gefið örlítið þjófstart á næstu bók Margrétar en hún verður gefin út í byrjun september.
Dalurinn sem er frumraun Margrétar S. Höskuldsdóttur kom út hjá Forlaginu sumarið 2022.
Bókin segir frá Sif sem heldur ein síns liðs vestur á firði í sumarbústað foreldra sinna, sem stendur í eyðidal, til að leggja lokahönd á meistararitgerð. Planið er að hún verði þarna ein síns liðs, sambandslaus í tvær vikur. Hún lætur vita af sér daglega með símtali til foreldra sinna frá stað með símasambandi í göngufæri frá bústaðnum en er að öðru leyti einangruð.
Bókin hefst á frásögn frá 18. öld af ungri konu að nafni Gunnhildur sem drukknar í bátsferð, en virðist svo ganga aftur. Síðan tekur nútíminn við þar sem Sif er einmitt að skrifa meistararitgerð í þjóðfræði um drauga og vætti dalsins sem hún er stödd í, en sagan af Gunnhildi er ein þekktasta draugasaga svæðisins. Sif hefur alltaf verið róleg í dalnum en í þessari útlegð byrjar eitthvað að raska ró hennar. Henni fer að líða illa í einverunni og býður ókunnugum erlendum ferðamanni sem hún rekst á húsaskjól. Á sama tíma hefur lögreglan leit að erlendri ferðakonu.