Frá því að bóluefni gegn COVID-19 voru fyrst tekin í notkun í desember 2020 og þangað til í mars 2023 fækkuðu bóluefnin dauðsföllum vegna heimsfaraldursins um 59% og björguðu þannig rúmlega 1,6 milljónum mannslífum á Evrópusvæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Frá þessu er sagt á vef Landlæknis og þar segir að þetta séu niðurstöður nýrrar rannsóknar WHO í Evrópu sem birtar hafa verið í tímaritinu The Lancet .
Rannsóknin leiddi í ljós að þau 2,2 milljón COVID-19 dauðsföll, sem vitað er um á svæðinu, hefðu orðið allt að 4 milljónir án bólusetninganna.
Flest mannslífanna sem var bjargað voru meðal 60 ára eða eldri en það er sá hópur sem er í mestri hættu á alvarlegum veikindum og dauða af völdum SARS-CoV-2 veirunnar, sem veldur COVID-19.
Samkvæmt rannsókn WHO, komu bóluefnin í veg fyrir 542 dauðsföll á þessu 2,5 ára tímabili á Íslandi og meirihluti þeirra hefði verið í aldurshópnum eldri en 60 ára.
Bólusetningar kom því í veg fyrir 70% þeirra COVID-19 dauðsfalla sem annars hefði mátt búast við án bólusetningar hérlendis.
Sóttvarnalæknir lagði til íslensk gögn til rannsóknarinnar og er meðhöfundur greinarinnar.