Bjargdúfa er gráblá, með gljáandi grænar og purpuralitar hálshliðar. Hún er með hvítan yfirgump, dökka rák á jaðri stéls og tvær svartar vængrákir. Ungfugl er brúnni, án gljáa á hálshliðum. Dökkar bjargdúfur eru líka til. Húsdúfan er afkomandi bjargdúfunnar. Hún er til í mörgum litum, t.d. hvít, alsvört og brún, og til eru ýmis ræktuð afbrigði. Dökkar bjargdúfur eru líka til.
Dúfur svífa oft með vængina uppsveigða. Gefa frá sér malandi kurr.
Aðallega frææta, fer gjarnan í kornakra, en tekur einnig arfafræ, sprota, ber og smáskordýr á jörðu niðri. Kemur einnig í fóður, þar sem fuglum er gefið kornmeti.
Bjargdúfan er staðfugl. Til skamms tíma urpu bjargdúfur í klettum á nokkrum stöðum á Austurlandi, frá Berufirði norður í Norðfjörð. Uppruni þeirra er óviss, þær gætu verið afkomendur húsdúfna sem hafa lagst út og/eða bjargdúfna sem hafa flækst hingað, en þær verpa m.a. í Færeyjum og á Skotlandi. Á undanförnum árum hefur útbreiðsla þeirra færst suður til Hornafjarðar og til vesturs á sunnaverðu landinu og nær hún nú alla leið í Mýrdal, undir Eyjafjöll, til Vestmannaeyja og í Ölfus. Þessi útbreiðsluaukning er talin fylgja aukinni kornrækt.
Húsdúfa verpur á helstu þéttbýlisstöðum landsins og dreift á sveitabæjum. Töluvert hefur verið herjað á hana á síðustu árum og hefur henni fækkað mikið í Reykjavík.
Af fuglavefur.is