Bíldudalur: Dalbraut 39 verði atvinnuhúsnæði

Dalbraut 39, Bíldudal.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur fengið erindi frá eiganda Dalbrautar 39 á Bíldudal, sem er íbúðarhús og er óskað eftir breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar. Breytingin sem óskað er eftir felur í sér breyttri landnotkun á lóðinni að Dalbraut 39 á Bíldudal.

Í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 er húsið á skipulögðu íbúðarsvæði og er óskað eftir að lóðin verði skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði. Ósk um breytingu er í tengslum við áform umsækjenda um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gistiheimili sem rekið er lengur en 90 daga á ári.

Skipulags- og framkvæmdaráðið leggur til við bæjarstjórn að farið verði í breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar þar sem gerð verði breyting á aðalskipulaginu og skilgreiningu verði breytt í verslunar- og þjónustusvæði fyrir lóðina að Dalbraut 39. Skipulags- og framkvæmdaráð telur að breytingin sé þess eðlis að hún geti talist óveruleg og málsmeðferð verði skv. því.

Skipulags- og framkvæmdaráðið hefur þó áhyggjur af fjölda bílastæða við húsið. Skipulagsfulltrúa var falið að kalla eftir umsögnum frá lóðarhöfum Dalbrautar 34, 35, 42 og Sælundi 1.

DEILA