Karlalið Vestra í knattspyrnu gerði góða ferð til Reykjavíkur í gær og gerði jafntefli í Víkinni við Íslands- og bikarmeistara Víkings í Bestu deildinni.
Víkingar náðu forystu strax í upphafi leiks og Vestri jafnaði undir lok leiksins. Það var Gunnar Jónas Hauksson sem átti gott skot fyrir utan vítateig í markhornið.
Tarik Ibrahimagic skipti úr Vestra á dögunum yfir til Víkings og var í byrjunarliði Íslandsmeistaranna. Silas Songani átti góðan leik fyrir Vestra og skapaði usla í vörn Víkinga með hraða sínum.
Meiðsli hrjá leikmannahóp Vestra og vantaði bæði Pétur Bjarnason og Andra Rúnar Bjarnason. Vonast er til þess að Pétur verði leikfær í næsta leik en þá kemur lið KR í heimsókn á Kerecisvöllinn.
Eftir leikinn er Vestri í 10. sæti deildarinnar og lyfti sér úr fallsæti. Fjögur lið eru neðst í deildinni og nokkuð langt á eftir öðrum liðum. KR, Vestri, HK og Fylkir koma til með að berjast um að halda sæti sínu í deildinni en tvö af þessum fjórum liðum munu falla niður í Lengjudeildina.
KR er með 15 stig, Vestri og HK með 14 stig og Fylkir 13 stig. KR á leik á morgun gegn FH og svo var frestað um daginn leik KR og HK.
Vestir og Fylkir eiga 4 leiki eftir, HK á fimm leiki og KR á sex leiki eftir að meðtöldum leiknum á morgun.
Vestri fær KR í heimsókn á laugardaginn og síðasti heimaleikurinn á Kerecis vellinum verður 1. september gegn Fylki. Takist Vestra að vinna báða þessa leiki verður staða félagsins nokkuð vænleg í botnbaráttunni.
Vestri á eftir tvo leiki á útivelli fyrst á Hlíðarenda gegn Val og síðasti leikurinn verður í Garðabænum gegn Stjörnunni. Liðið hefur sýnt að það getur sótt stig á útivelli, unnið þar þrjá leiki og gert þrjú jafntefli af 9 leikjum. Á heimavelli hefur Vestri aðeins uppskorið tvö jafntefli. Þar liggur helsti vandi Vestra.
Jeppe Pedersen er genginn til liðs við Vestra og vonast er til þess að hann verði gjaldgengur í næsta leik. Hann er bróðir Patrik Pedersen, leiksmanns Vals um árabil og mikils markaskorara. Jeppe hefur leikið fyrir öll ungmenna landslið Dana og á hann leiki í efstu og næst efstu deild Danmörku. Jeppe gerir samning við Vestra út 2025.