Beint frá býli dagurinn verður sunnudaginn 18. ágúst

Beint frá býli verður á Sævangi á sunnudaginn og er tengt hrútaþuklinu.

Beint frá býli dagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í fyrra, á sex lögbýlum hringinn í kringum landið, einu í hverjum landshluta. Tilefnið var 15 ára afmæli félagsins, en tilgangurinn að kynna íbúum starfsemi
heimavinnsluaðila á lögbýlum og byggja upp tengsl milli þeirra.

Ábýli gestgjafanna söfnuðust saman aðrir framleiðendur af lögbýlum úr landshlutanum til að kynna og selja sínar vörur. Ýmis afþreying var í boði til viðbótar við það sem býlin sjálf höfðu upp á að bjóða og var dagurinn sérlega barnvænn.
Afar góð mæting var í öllum landshlutum og almennt mikil ánægja. Skipuleggjendur áætla að 3-4000 manns hafi lagt leið sína á bæina samanlagt. Því var ákveðið að gera daginn að árlegum viðburði.

Fleiri smáframleiðendur með í ár

Beint frá býli dagurinn verður aftur haldinn síðasta helgidag fyrir skólabyrjun sem í ár er sunnudagurinn 18. ágúst. Öllum þeim ríflega 200 framleiðendum sem eru í Samtökum smáframleiðenda matvæla sem Beint frá býli er aðildarfélag að, verður boðið að taka þátt, en ríflega helmingur þeirra er á lögbýlum.

Sjö gestgjafar – Húsavík á Ströndum

Gestgjöfunum hefur verið fjölgað úr sex í sjö, þar sem í ár verða tveir á hinu víðfeðma Suðurlandi. Á Suðurlandi eystra verður gestgjafinn Háhóll geitabú á Hornafirði. Á Suðurlandi vestra Hreppamjólk í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Á Vesturlandi verður gestgjafinn Grímsstaðaket á Grímsstöðum í Borgarbyggð. Á Vestfjörðum verður gestgjafinn Húsavík á Ströndum, en hátíðin verður sameinuð Hrútaþukli og verður því haldin á Sauðfjársetrinu Sævangi sem er rétt hjá.

Á Norðurlandi vestra verður gestgjafinn Brúnastaðir í Fljótum í Skagafirði og á Norðurlandi eystra Svartárkot í Bárðardal. Á Austurlandi verður gestgjafinn Sauðagull á Egilsstaðabúinu í Fljótsdal, í samstarfi við Óbyggðasetrið sem er staðsett á býlinu.

DEILA