Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

Þekktastur horfinna jökla hér á landi er líklega Ok sem var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var hann væri hættur að skríða undan eigin þunga. Hér er mynd af jöklinum 2. nóvember 1990. Um 24 árum síðar var hann afskráður sem jökull. ((Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Sameinuðu þjóðirnar hafa nýlega ákveðið að árið 2025 verði helgað jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars ár hvert verði dagur jökla. 

Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Í aðdraganda jöklaársins standa ýmsar stofnanir, háskólar og alþjóðasamtök fyrir nokkrum viðburðum til þess að beina athygli að jöklabreytingum og mikilvægi þeirra.

Alþjóðajöklaárið 2025 verður notað til þess að beina athygli almennings og fjölmiðla að rýrnun jökla og efla vöktun og rannsóknir á jöklabreytingum. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru hvött til þess að skiptast á gögnum, þekkingu og aðferðum til þess að sporna við rýrnun jökla og skipuleggja aðlögun að þeim breytingum sem hörfun þeirra veldur.

Leifar af Okjökli 21. ágúst 2014. Hann er ekki lengur kúptur heldur aðeins slitróttur ísfláki. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Hugmyndin að baki ári jöklanna 2025 kom frá Tadsíkistan og hefur verið útfærð á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), Alþjóðlegu jöklabreytingasamtakanna (WGMS) og fleiri alþjóðastofnana.

Efnt verður til margvíslegra viðburða á næsta ári á alþjóðavettvangi í tilefni af ári jöklanna og einnig hér á landi.

DEILA