Allir með

Verkefnið „Allir með“ er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og ÍF (Íþróttasamband fatlaðra). Verkefnið er þriggjá ára verkefni sem er liður í að ná markmiðum 30. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru skýr ákvæði um viðeigandi aðlögun allra í íslensku samfélagi.

Verkefnið er styrkt af Félags- og vinnumálaráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.
Íþróttahreyfingin sér um framkvæmd verkefnisins sem verður unnið á tímabilinu 2023 – 2025.

Í samstarfi við Íþróttafélagið Ívar ætlar körfuknattleiksdeild Vestra að bjóða upp á körfuboltaæfingar fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem til dæmis þurfa meiri stuðning, hentar betur að vera í minni hópum og hafa aðgengi að fleiri þjálfurum á æfingum.

Hópíþróttir, líkt og körfubolti, henta líka fötluðum, börnum á einhverfurófi eða með frávik í hreyfiþroska. Körfubolti er fyrir alla og finnum við leiðir til að aðlaga íþróttina að iðkendum okkar svo þau geti notið sín á æfingum á eigin forsendum, ásamt því að upplifa sig sem hluta af liði.

Yfirþjálfari hópsins verður Egill Fjölnisson. Hann hefur langa reynslu af vinnu í stoðþjónustu hjá Ísafjarðarbæ ásamt því að hafa lokið námi í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann er leikmaður meistaraflokks karla í Vestra og hefur æft körfubolta frá unga aldri. Honum til aðstoðar munu vera aðrir þjálfarar frá körfuknattleiksdeild Vestra ásamt þjálfurum frá Íþróttafélaginu Ívar.

DEILA