Afleiðingar kóvid: var óvinnufær í 2 ár

Í nýútkomnu ársriti Virk er viðtal við Jóhann Áskel Gunnarsson, sundlaugarvörð í Bolungavík sem fékk kovid í fyrstu bylgunni og veiktist illa. Hann veiktist í mars 2020 og var fluttur fáveikur í sjúkravél til Akureyrar og svo til Reykjavíkur.

„Ég var í öndunarvél í átta og hálfan sólarhring. Ég var rosalega mikið veikur og á tímabili var mér varla hugað líf,“ segir Jóhann Áskell í viðtalinu.

Jóhann var fimm vikur á spítalanum og síðan tók við endurhæfing sem tók á að hans sögn.

„Þessi veikindi tóku gríðarlega á andlega sem líkamlega og ekki síður á fjölskyldu mína sem á tímabili beið milli vonar og ótta um hvernig þetta færi. Ég á konu og fimm börn. Áhyggjurnar hjá mér komu ekki fyrr en eftir á. Ég gerði mér í fyrstu ekki almennilega grein fyrir hve veikindi mín voru mikil. Svo á ég eitt barnabarn sem fæddist í nóvember 2020 og annað á leiðinni. Ég fékk að vita þegar ég vaknaði upp á Landspítalanum að ég væri að verða afi, það lífgaði mikið upp á tilveruna á þessum erfiða tíma.“

Jóhann var óvinnufær í tvö ár og gat ekki snúið aftur til fyrri starfa hjá mjólkurfélaginu Örnu. Í gegnum Virk á Vestfjörðum fór hann í starfsendurhæfingu og komst að hjá sjúkraþjálfara. Í mars 2022 fékk hann vinnu í sundlauginni í Bolungavík og er þar í 70% starfi.

Enn vantar mikið upp á þrekið og segist Jóhann vera viðkvæmur fyrir kvefpestum. Hann segir þjónustu Virk hafa reynst honum best.

„Þjónusta VIRK skipti mig höfuðmáli, að geta hitt fólk og fengið andlega og líkamlega aðstoð. Reykjalundur var einnig mjög mikilvægur, auk endurhæfingarinnar hitti maður þar fólk sem svipað var ástatt fyrir og gat þá rætt um sameiginlega glímu við afleiðingar af slæmum kovidveikindum. Bæði þar og hjá VIRK eignaðist maður góða vini sem ég hef samband við enn í dag. Úrræðin sem komu mér best voru göngu-ferðir úti og námskeiðin sem ég sótti á vegum VIRK. Einnig vinna sem ég stundaði sem úrræði hjá VIRK, til dæmis í gróðurhúsi. Sálfræðiþjónustan reyndist mér líka vel.“

„Veikindin höfðu þó ekki áhrif á búsetu fjölskyldunnar, við höfum búið í Bolungarvík síðan við fluttum vestur í ágúst 2013. Við eru bæði hjónin ættuð af Ströndum. Það er fínt að búa hér fyrir vestan, maður hefur allt til alls hér.“

DEILA