Act Alone í tuttugu ár: Heiður þeim sem heiður ber

Það er angurvær tími sem nú fer í hönd. Daginn styttir og kvöldin lengjast. Kyrrð vestfirskra fjarða verður áþreifanleg og dulúð birtunnar magnast þegar sólin sest á sjóinn og varpar rauðum bjarma um himininn. Þetta er umgjörð Act Alone – einleikjahátíðarinnar sem haldin verður 7.-10. ágúst á Suðureyri við Súgandafjörð. 20 ár gera Actið eina lífsseigustu listahátíð á landsbyggðinni.

Einleikjahátíðin Act Alone fór fyrst fram á Ísafirði í júní 2004 og hefur verið árviss viðburður síðan. Kóvíd-fárið setti að vísu hátíðina í uppnám, en í staðinn var farið í heimsóknir í alla grunnskóla á Vestfjörðum með einleiki, þegar tækifæri gáfust. Þannig hefur þráðurinn aldrei slitnað. Fyrstu árin var hátíðin haldin á Ísafirði en teygði sig einnig til Þingeyrar, Bolungarvíkur, Haukadals í Dýrafirði og að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Árið 2009 varð önnur helgi ágústmánaðar tími einleikara og frá árinu 2012 fékk hátíðin fast aðsetur á Suðureyri við Súgandafjörð í samstarfi við einstaklinga og fyrirtæki á staðnum.

Act Alone hátíðin hefur þroskast og stækkað frá fyrstu árum. Fjölbreytni og margbreytileiki listalífsins endurspeglast vel í hátíðinni. Í tuttugu ár hafa rúmlega tvö hundruð listamenn komið fram á hátíðinni, innlendir og erlendir, úr ótal listgreinum: leikarar og dansarar, ljóðskáld og rithöfundar, myndlistarmenn og hönnuðir, söngvaskáld, trúðar og látbraðgsleikarar, uppistandarar og fjöllistamenn. Eitt eiga þeir sameiginlegt: Þeir standa einir á sviðinu. Þannig miðla þeir list sinni til áhorfenda, áheyrenda, njótenda.

Og Vestfirðingar hafa tekið listinni fagnandi. Heimamenn og aðkomumenn, börn, unglingar og fullorðnir, gestir og gangandi, fjölmenna á hvert einasta atriði, hvort heldur er í Félagsheimili Súgfirðinga, úti á götum Suðureyrar, inni í Þurrkveri, í eða við kirkjuna. Allt þorpið er undir. Námskeið, leiksmiðjur, uppákomur, götuleikhús, leikrit, dansverk, upplestur, tónleikar – allt er ókeypis. Þannig hefur það alltaf verið á Act Alone. En að baki stendur fjárstuðningur fyrirtækja á Suðureyri og annarsstaðar á Vestfjörðum og víðar auk framlags Ísafjarðarbæjar og opinberra sjóða. Ekkert af þessu myndi þó duga ef ekki kæmi til framlag sjálfboðaliða og ekki síst ódrepandi elja og þrautseigja frumkvöðlanna.

Listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil Kristjánsdóttir hafa undirbúið, stýrt og stjórnað Act Alone frá upphafi. Í þeim hjónum sameinast listataugin frá Bíldudal og Þingeyri og ekki síður hin vestfirska framtaksemi og þrautseigja. Fólk sem lætur ekki mótbyr eða straumköst bera sig af leið, en halda ótrauð áfram lífinu og listinni. Þau vita sem er að ekkert markvert verður til nema fyrir þrotlausa vinnu, sem aldrei verður metin til fjár. Vestfirðingar standa í þakkarskuld við þau listahjón. Framlag þeirra til lista og menningar í Ísafjarðarbæ er einstætt. Act Alone – listahátíðin á Suðureyri er rauðasta rósin í þeim vendi.

Njótum og sjáumst á Actinu á lognværu ágústkvöldi á Suðureyri – enn eina ferðina – þar sem einleikurinn lifir góðu lífi í ljúfu samræmi við stórgert umhverfi og fjölskrúðugt mannlíf.

Sigurður Pétursson

Höfundur er sagnfræðingur og stjórnarmaður í Act Alone.

DEILA