Áfram heldur hin einstaka listaveisla á Act alone á Suðureyri í dag. Nú verður leikið á öllum sviðum ef svo má segja bæði þessa heims og handan. Því kveldið hefst á miðilsfundi Önnu Birtu kl.19.01. Viðburðurinn hefst á söng við undirspil píanistans Sigurðar Helga. Anna Birta Lionaraki miðill rýnir á milli tveggja heima hvar rætt verður við lífs og liðna. Vert er að taka fram að aðeins komast 40 sálir á þennan viðburð og verður hægt að nálgast miða frá kl.18.01 í félagsheimilinu á Suðureyri.
Næst stígur á stokk belgísk/franski trúðurinn Fransoise Simon með trúðaeinleikinn Heading North. Trúðurinn heldur af stað á slóð fortíðarinnar sem mótaði hana. Sýningin hefst kl.20.31 og kl.22.01 stígur á stokk leikkonan Þórey Birgisdóttir. Hún æfir nú einleikinn Ífigenía í Ásbrú og er mætt vestur til að hafa opna æfingu á þessu verðlaunaverki sem hefur farið sigurför um heiminn. Tónleikar kveldsins eru með hinni vestfirsku Salóme Katrínu og hefur hún leik kl.23.21. Kveldinu lýkur síðan fyrir utan félagsheimilið þar sem dansmyndböndum verður varpað á vegg leikhússins á Suðureyri. Hér eru á ferðinni þrjú videódansverk úr sarpi Boreal danshátíðarinnar og er þessi viðburður upphaf á samstarfi millum þeirra og Actsins.
Rétt er að minna á að hægt er að fá ókeypis far með langferðabifreið Act alone sem gengur daglega millum Ísafjarðar og Suðureyrar. Áætlun má finna á www.actalone.net
Anna Birta miðill.