Um það leiti sem ég var að yfirgefa mínar æskustöðvar Flateyri á áttunda áratug tuttugustu aldar þá bjuggu það tæplega fimmhundruð manns.
Þar var frystihúsið Hjálmur sem var lífæð samfélagsins sem renndi svo stoðum undir annan atvinnurekstur sem og blómleg nægjusöm viðskipti.
þar var Sparisjóður Önfirðing, Kaupfélag Önfirðinga og Póstur og sími – þar var Allabúð, Greipsbúð, Bræðurnir Eyjólfsson og bakarí – þar var líka versluni Dreifir sem seldi smærri heimilistæki og ýmislegt annað nytsamlegt og lítil hannyrðaverslun í horninu hjá Ninnu Hinriks, þar var líka sjoppan hans Einars Hafberg og Essosjoppa – þar var Hefill smíðaverkstæði og þar var málari, rafvirki, múrari og Benni sem vissi allt um vélar, þar var líka saumakona og hárgreiðslukona, þar var ljósmóðir og gjaldfrjáls læknir sem jafnvel leysti úr vandræðum manna á förnum vegi ókeypis, þar var líka hljómsveit sem reglulega sló upp dansleikjum í félagsheimilinu sem í þá daga hýsti menningarviðburði af ýmsum toga þorpsbúum til afþreyingar og ánægju og þar var líka Barna og unglingaskóli Flateyrar sem á nú í vök að verjast.
Lífið gekk sinn vanagang í þessu litla þorpi fyrir tíma hagræðinga og flestir vissir með sína lífsafkomu.
En svo var það einn daginn að farið var að tala um ofveiði. Trillurnar og dagróðrar bátarnir voru að ganga af þeim gula dauðum að sagt var. Til að stemma stigu við þessum ótíðindum gripu stjórnvöld til þeirra ráða meðal annars að úthluta aflaheimildum og skipstjórakvóta á togarana sem þá voru ekki svo stórir í samanburði við togara nútímans og í framhaldi ekki svo löngu síðar var framsal á kvóta heimilað og þá hófst hagræðingin í sjávarútvegi fyrir alvöru með tilflutningi á aflaheimildum og frystitogaravæðingu og frystihúsin fóru í úreldingu. – þar með var búið að klippa á lífæðar litlu sjávarþorpana hringin í kringum landið og lífsafkomu þúsundir heimila – síðan þá hafa þessi litlu þorp sem áður sköffuðu svo vel í þjóðarbúið barist í bökkum bótalaust.
Fljótlega fór að kvarnast upp úr þessum samfélögum, fólk með brostnar vonir fluttist óbætt á brott frá verðlausum eigum og verslanir og þjónusta heyrðu brátt sögunni til – svo allt sem fólkinu sem enn þraukaði vanhagaði um þurfti að sækja um lengri veg með tilheyrandi kostnaði sem stöðugt eykst með hverri framkvæmd sem fyrirhuguð er í vegamálum landsins í formi til dæmis vegtolla og kílómetragjalds – sem auðvitað er svo ávísun á hækkandi verð á öllum aðföngum fyrir landsbyggðina.
Fyrir tíma hagræðingar í sjávarútvegi var verið að malbika hringveginn og byggðar voru brýr stórar og smáar – þetta var þá metnaðarmál hjá þjóðinni en ekki íþýngjandi verkefni eins og nauðsynlegt viðhald á vegum landsins virðist vera í dag – helst ekkert hægt að gera nema aukaálögur komi til.
Það virðist sem hagræðingin í sjávarútvegi hafi ekki skilað sér eins ríkulega í samneysluna eins og vonir hafa eflaust staðið til – né heldur hefur þeim sem urðu fyrir miklu búsifjum vegna hennar verið bættur skaðinn.
Þessi hagræðing hefur í engu skilað sér til landsmanna – hún gerði fáa ríka og marga snauða – upp úr henni spratt auðmannastétt í landinu – sem á orðið allt sem flat hefur verið á fróni – og svo er frjálsri samkeppni flaggað.
Sumir líta svo á að auðmannastéttin hafi ekki bara bjargað auðlindinni okkar heldur einnig þjóðinni frá fornaldarhokri og benda á máli sínu til stuðnings á breytta tíma – en það er aldrei svo að tímarnir breytist í eitt skipti fyrir öll – því enn og aftur eru breyttir tímar sem gera ríkjandi sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar úrelta – nútíðin kalla á vistvænar veiðar – sem sé afturhvarf til fortíðar – að róið sé til fiskjar þaðan sem styðst er á miðin og að aflinn sé fullunninn sem næst löndunarstað -svo darga megi sem mest úr óþarfa þunafluttingum.
En hversu fús eru stjórnvöld nú til breytinga í þágu náttúrunnar ?
Það hefur ekki bara verið hagrætt í sjávarútvegi á liðnum áratugum í íslensku þjóðfélagi. Það er alltaf endalaust verið að hagræða og ekki ósennilegt að ónot fari um einhverja þegar á hagræðingu er minnst því hún hefur oftast í för með sér niðurskurð, uppsagnir og biðlista. það læðist því að sú hugsun að allt hjal um hagræðingu sé bara fyrirsláttur þegar fela þarf mistök, vandræðagang, undanskot eða hreinlega uppgjöf.
Hagræðing hefur til að mynda staðið yfir í heilbrigðiskerfinu í áratugi en árangurinn vissulega látið á sér standa eins og öllum má vera ljóst því heilbrigðiskerfið hefur aldrei verið eins bágt og nú – það er því sennilega auðsóttara að fá blessun hjá páfanum í Róm heldur en tíma hjá heimilislækni á Íslandi.
Það hefur varla farið framhjá neinum að suma dreymir um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu svo það má velta fyrir sér hvort verktaka sérfræðilækna inn á stofnunum sé liður í að láta þann draum rætast eða hvort hún hafi einungis verið hugsuð sem hagræðing ?
Við greiðum komugjald þegar við förum til sérfræðings á okkar heilsugæslu eða til sjálfstætt starfandi sérfræðings sem heimilislæknir hefur vísað á – sérfræðingarnir senda síðan reikning á Sjúkratryggingar Íslands til að fá greitt fyrir sína vinnu og eins og kom fram í Kveik fyrir nokkrum árum þá voru þeir að fá 700.000 kr á dag að meðaltali.
Hjúkrunarheimili á Íslandi er ríkisstyrktur einkarekstur og það er sagt að hver vistmaður kosti ríkið 2 milljónir á mánuði – það er svipað og mánaðar sigling með skemmtiferðaskipi kostar – í lúxussvítu með einkaþjóni og gufubaði.
Svo eðlilegt að spurt sé hvort farið sé faglega yfir reikninga frá verktökum áður en greitt er fyrir þjónustuna – en bent hefur verið á af ákveðnum þingmönnum að eitthvað vanti upp á rýnið í ríkisresktrinum í sumum tilfellum.
Hér eru bara tvö dæmi tekin úr heilbrigðiskerfinu sem gætu flokkast undir íslenska hagræðingu – en um skeið hafa verktakar einnig séð um þrif og þvotta sem og mat fyrir heilbrigðisstofnanir landsins – svo ekkert nema eðlilegt að þetta fyrirkomulag sé rýnt reglulega til að kanna hagkvæmnina sem í því felst – því ríkinu ber skylda til að velja hagkvæmasta kostinn í hverju og einu – hverju sinni.
Hagræðing hefur einnig átt sér stað í skólakerfinu – fyrsta skrefið í hagræðingarátt hefur ef til vill verið flutningur skóla frá ríki til bæjar og sveitarfélaga – sem á sér stað á sama tíma og bæjar og sveitarfélög eru að missa stóran hluta sinna tekna vegna hagræðingar í sjávarútvegi. Það má því furðu sæta að slík fásinna skuli hafa verið samþykkt af bæjar og sveitarstjórnum. Það er ekki að sjá að þessi flumbrugangur né önnur hagræðing sem hefur átt sér stað í skólakerfinu á liðnum áratugum hafi skilað sér í betri árangri nemenda – sem hlýtur þó alltaf að eiga að vera markmiðið – en eins og alþjóð er kunnugt þá er ólæsi alvarlegt vandamál meðal barna á Íslandi – sem eitt sinn var talin mikil bókaþjóð.
Skólakerfið á að sjálfsögðu að vera alfarið á höndum ríkisins svo tryggja megi að öllum börnum á Íslandi sé gert jafn hátt undir höfði.
Það er mín skoðun að próf séu nauðsynleg svo hægt sé að fylgjast með hvar börnin standa og að raða þurfi niður í bekki eftir getu – þannig er best tryggt að hvert og eitt fái kennslu við hæfi.
Stjórnvöld á hverjum tíma halda því gjarnan fram að hvergi sé betra að búa en á Íslandi.
Sumir hafa það vissulega mjög gott á meðan aðrir hafa það helvíti skítt og því miður virðast allar hagræðingar lúta að því að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari.
Ísland er ríkt land af auðlindum því ættu allir hér að geta lifað mannsæmandi lífi ef slegið yrði aðeins af forréttindadekrinu.
Við erum lítil þjóð því er einkavinavæðingin og frændhyglin stór vandamál hér á landi.
Þegar við göngum til kosninga þá vitum við í raun ekki alltaf hvað við erum að kjósa yfir okkur því rótgrónir flokkar sumir hafa í gegnum tíðina verið að taka í „fóstur“ heilu ættirnar sem síðan í skjóli flokkshollustu hafa tekið sér völd í sínu nærumhverfi – þá oftast með persónulega hagsmuni að leiðarljósi sem sjaldnast eiga samleið með almannahagsmunum.
Við þurfum að hrista af okkur þessa fornaldarhefð því hún er ekki heilbrigð – hún er ávísun á stöðnun, úrkynjun og landflótta – þar sem tækifæri og völd eru frátekin í frændgarði langt fram í tímann og þá hvorki spurt um getu né hæfileika.
Völd eru vandmeðfarin og þeim fylgir ábyrgð sem ekki er til að dreifa þegar um sjálftekin völd er að ræða – sem stjórnast oftast af sérhagsmunagæslu.
Í siðferðilegum efnum er það fordæmið sem skiptir máli, en ekki forræðið.
Páll Skúlason
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir