Ég hélt ég væri borgarbarn í húð og hár! Ólst upp á höfuðborgarsvæðinu og átti dásamlega æsku á malbikinu. Ég flakkaði töluvert milli; sveitarfélaga, hverfa og skóla og græddi á því mjög góða aðlögunahæfni sem ég er mjög þakklát fyrir. Með því kynntist ég fjölbreyttum kennsluháttum og kynntist mörgum krökkum. Sem barn var ég félagslynd og var fljót að eignast vini.Ég hef því alltaf átt auðvelt með að kynnast fólki og mér finnst gaman að ræða hin ýmsu mál og fá sýn annarra. Ég lauk minni grunnskólagöngu í Foldaskóla í Grafarvogi og held ennþá sambandi við nokkrar vinkonur úr þeim skóla. Eftir grunnskólagönguna fannst mér mikilvægara að fara vinna fyrir mér og mátti því menntaskólinn bíða betri tíma. Hef ég unnið hin ýmsu störf og hefur vinnumarkaðurinn verið mín helsta reynsla til félagslegra samskipta, sérstaklega þegar ég hef starfað við þjónustustörf.
Þetta er kannski týbísk saga um stelpu hittir strák! Hann var bóndi í Þjóðólfstungu með kýr og kindur, hún borgarstelpa sem vann á lager við afgreiðslustörf. Ég var ekki lengi að taka ákvörðun, flutti vestur til hans tæplega 22 ára og fór að mjólka beljur, meira sveitó gat það ekki orðið fyrir borgarbarnið. Fann fljótlega að enginn vafi var á því að ég er landsbyggðartútta. Í dag lít ég á mig sem mikinn Bolvíking! Víkin er eitt fallegasta bæjarstæði landsins og ekki að furða að hér hef ég ílengst.
Kollféll ég fyrir bóndanum Sigurjóni Sveinssyni, giftist honum og eignaðist með honum tvo drengi; Svein Gretti og Guðbjörn Sölva sem núna eru 21 og 17 ára. Eru þeir mitt stærsta afrek og stoltari gæti ég ekki verið af þeim, því yndislegri einstaklingar eru vandfundnir. Besti tíminn er þegar við sitjum við kvöldmataborðið og förum yfir daginn okkar. Oftast er mikið hlegið og grínast.
Árið 2006 brugðum við svo búi og fluttum niðrí bæ, hófum að mennta okkur og fjölga mannkyninu.
Með baráttu minni fyrir auknu framboði á fjarnámi, gat ég menntað mig og aflað mér þekkingar og reynslu í því fagi sem mig dreymdi um. Ef hugsjónin er til staðar þá sækir maður fram og með stuðningi góðs fólks þá útskrifaðist ég með BA gráðu í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2016. Hef ég unnið með börnum og í velferðarmálum síðan sem er málaflokkur sem ég brenn fyrir. Ég hef einnig síðustu ár sótt ýmis námskeið sem aukið hafa þekkingu mína á málefnum barna. Síðustu 5 ár vann ég sem ráðgjafi Virk á Vestfjörðum. Á vordögum vatt ég kvæði mínu í kross og hóf starf hér í Bolungarvík sem málstjóri farsældar barna. Þar starfa ég við að samþætta þjónustu barna á milli menntastofnanna, félagsþjónustu og fjölskyldna sem myndar heilstæða umgjörð. Starf sem er í senn áhugavert, krefjandi og mikilvægt.
Börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum. Rannsóknir sýna því miður aukningu á notkun þunglyndis- og kvíðalyfja hjá ungu fólki og er það verulegt áhyggjuefni að börnunum okkar virðist ekki líða vel. Með innleiðingu nýju farsældarlaganna árið 2022 hófst vegferð með það að markmiði að halda betur utan um börn og ungmenni, veita þeim stuðning og auka hamingju þeirra. Þar er lögð áhersla á að grípa inn strax, vinna að lausn og koma í veg fyrir að vandinn aukist. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að snúa þessari þróun við.
Ég hef mikinn áhuga á samfélagsmálum og er ég í dag formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar, sem bæjarfulltrúi vinn ég með góðum hópi fólks sem stuðlar að betra samfélagi í bænum okkar. Einnig sinni ég ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum af miklum metnaði og áhuga. Það er magnað að horfa á uppbygginguna sem átt hefur sér stað í Bolungarvík síðustu ár. Miklar framkvæmdir og endurbætur hafa orðið ásamt bættum rekstri bæjarins sem þakka má metnaðarfullu starfs- og forstöðufólki í hverju sæti. Það er svo sannarlega ekki sjálfgefið. Það hefur einkennt Bolungarvík að hér býr duglegt og kraftmikið fólk sem vill samfélaginu og samferðarfólki sínu vel. Ég er verulega stolt af samfélaginu okkar og mér þykir vænt um að vera partur af því.
Náttúran hérna fyrir vestan er einstök og veit ég fátt skemmtilegra en að vera úti í náttúrunni, ganga á fjöll, hjóla og vera með fólkinu mínu í útilegu. Við erum líka með nokkrar kindur í Meiri-Hlíð og það er gaman að njóta samverunnar með fjölskyldunni í kringum verkefnin sem snúa að því; sauðburður og smalamennskur eru hápunktar þar. Það er líka mikilvægt að skora á sig og er ég nýkomin heim úr göngu með Birnu Hjaltalín bestu vinkonu minni, við gerðum okkur lítið fyrir og þrömmuðum yfir Fimmvörðuháls! Krefjandi ganga en jafn skemmtileg í góðum félagsskap og í góðu veðri sem ég var svo heppin að njóta. Frá borgarbarninu í sveitarstelpuna, malbikið mótaði mig og landbyggðin tók við mér og hefur gefið mér tækifæri til að kynnast ástinni, ala börnin mín, mennta mig. Saman hafa þessi ólíku umhverfi gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég gæti ekki verið þakklátari með lífið.
Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, landsbyggðartútta og Bolvíkingur.