Ég er fæddur árið 1963 að Teigi í Fljótshlíð hvar foreldrar mínir bjuggu blönduðu búi. Í þá daga byrjuðu börn til sveita snemma að vinna og sjö ára var ég settur á traktorinn og látinn snúa. Í minni sveit voru menn Framsóknarmenn, áttu Massey Ferguson og Land Róver og skiptu við Kaupfélagið og ESSÓ. Íhaldsbæirnir, sem voru örfáir, þekktust af bláum Fordtraktorum. Í minni sveit voru flestir traktorar rauðir.
Þegar ég var níu ára brugðu foreldrar mínir búi og fluttu á Selfoss. Ég, sem snemma varð eilítið einþykkur og ákveðinn, harðneitaði að flytja og úr varð að ég var skilinn eftir hjá besta vini pabba, Árna í Hlíðarendakoti sem þar bjó einn og tók að sér að fóstra mig. Hann á a.m.k. jafn mikinn hlut í uppeldi mínu og pabbi og mamma.
Við Árni bjuggum saman sumrin mörg, jól, páska og helgar. Við borðuðum þegar við vorum svangir, þvoðum okkur þegar við voru skítugir og sváfum þegar við vorum syfjaðir. Þannig liðu dagar, mánuðir og ár í Hlíðarendakoti. Dagurinn var nótt og nóttin dagur, enda Innhlíðin eitt samfellt ævintýri.
Það ríkti ávallt gleði í kotinu. Þangað komu karlar víða að úr sveitinni, reyktu London Docks vindla í eldhúsinu og drukku á stundum koníjakk. Þar var mikið rætt og deilt um stjórnmál og við mennirnir hlustuðum á Sigurð Sigurðarson lýsa fótboltalandsleikjum í útvarpinu. Flestir vorum við framsóknarmenn og allir samvinnumenn. Ég drakk kaffi með sykri og mjólk og dýfði í kleinu. Ég var 10 eða 12 ára gamall. Karlarnir sögðu að ég væri kjaftfor. Árni fóstri glotti og þótti líklega uppeldið vera að skila sér. Ólafur Jóhannesson var forsætisráðherra.
Ég flutti til Reykjavíkur þegar ég var á sautjánda ári til að fara í Menntaskólann við Hamrahlíð og hef séð fyrir mér síðan. Eftir það fór ég í lögfræði í Háskóla Íslands, en sóttist námið hægt vegna mikilla félagsstarfa. Ég hafði farið í mína fyrstu utanlandsferð sem skiptinemi til Bandaríkjanna í eitt ár og hætti þar vestra að vera framsóknarmaður og gerðist kommúnisti. Var oddviti félags vinstrimanna í kosningum til Stúdentaráðs og síðar framkvæmdastjóri SHÍ. Á þessum árum var ég einnig virkur í starfi Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins og frá þessum árum eru minnistæðir tveir leiðtogar frá síðustu öld sem ég hitti. Annars vegar Einar Olgeirsson sem eitthvert kvöldið kom og hitti okkur krakkana eftir hörmuleg úrslit kosninga í borgarstjórn Alþýðubandalagsins þar sem enginn mætti á kosningavöku nema við og hann sem drakk með okkur ódýrt rauðvín úr bastflösku alla nóttina. Hins vegar Fidel Castro sem ég álpaðist inn í garðveislu hjá sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs í miðborg Havana. Þessir menn voru báðir áhrifavaldar í sögu síðustu aldar, annar innanlands og hinn á alþjóðavettvangi. Þeir voru báðir fulltrúar gjaldþrota stjórnmálastefnu sem heillaði mig sem ungmenni líkt og mörg önnur víða um heim. Ég hef á mínum fullorðinsárum orðið frjálslyndur hægrikrati.
Eftir útskrift flutti ég í Borgarfjörðinn og gerðist sýslufulltrúi. Því starfi fylgdi sú kvöð að kenna lögfræði við Samvinnuháskólann á Bifröst, einn morgun í viku. Ég fann fljótlega að mér þótti mun skemmtilegra að kenna lögfræði en praktisera hana og varð lektor við skólann og seinna rektor hans um sjö ára skeið. Á þeim tíma óx skólinn úr rúmlega 100 nemendum í 800 og á Bifröst byggðist upp háskólasamfélag með veitingahúsi, verslun og leikskóla þar sem á þessum tíma voru 120 börn. Þar er nú Snorrabúð stekkur. Samhliða starfi á Bifröst átti ég þátt í stofnun Símenntunarstöðvar Vesturlands og Menntaskóla Borgarfjarðar.
Eftir Bifröst tók ég þátt í að stofna Keili á gamla varnarsvæðinu í Keflavík og var fyrsti framkvæmdastjóri skólans. Það má því segja að mestan partinn af minni starfsævi hafi ég unnið að skólamálum, nú síðast með Lýðskólanum á Flateyri.
Síðustu ár höfum við Áslaug Guðrúnardóttir, eiginkona mín, dvalist mikið á Flateyri, þar sem við keyptum gamalt hús í niðurníðslu árið 2016 sem við höfum verið að gera upp síðan. Júlluhús var byggt árið 1900, flutt inn tilhoggið frá Noregi af hvalstöðinni. Við Áslaug höfum einnig saman unnið að þróun sjóbaða í landi Þórustaða, innst í Önundarfirði. Við stofnuðum einnig og rákum fasteignaþróunarfélagið Þorpið vistfélag í Reykjavík en það félag hefur nú verið selt. Áslaug var áður markaðsstjóri Listasafns Reykjavíkur og þar áður fréttamaður hjá RÚV til margra ára.
Við Áslaug eigum samtals sex börn, ég átti þrjá syni af fyrra hjónabandi og hún tvær dætur úr fyrri samböndum. Saman eigum við Sigrúnu Erlu sem er að verða 10 ára. Við erum því rík af börnum.
Áhugamál mín eru lestur, ferðalög og matreiðsla. Ég hef skrifað eina bók, ferðabókina Enginn ræður för um þvæling minn einn um Ástralíu þar sem ég elti uppi slóðir Jörundar hundadagakonungs um það víðfeðma land og segi sögu hans.
Mig langar að deila með ykkur einni uppskrift hér í lokin:
Kraftmikið Chilli con carne í lúxusútgáfu með súkkulaði
Í þá daga þegar Spánverjar ríktu yfir heiminum mun nunna ein María de Ágreda að nafni hafa skrifað upp fyrst manna og kvenna hvernig elda ætti Chilli con carne. Nautakjötið þekktu Spáverjar en chilli-inu kynntust þeir í Ameríku, eftir að hafa notið gestrisni heimamanna, launað slíkt með ofbeldi og yfirgangi með því að leggja undir sig stærstan hluta Ameríku, stela gulli heimamanna, drepa þá og éta matinn þeirra.
Systir María, sem kölluð var „Bláa nunnan“ (tengist að því ég best veit ekki vondu sætu þýsku hvítvíni) fór aldrei frá Spáni nema andlega þegar hún ferðaðist í dái til Ameríku sem oft gerðist og þótti fullkomlega eðlileg hegðun hjá nunnu í spænsku klaustri. Í slíkur ferðalögum birtist hún frumbyggjum sem létu þá skírast í unnvörpum, svona rétt áður en þeir fengu mislinga eða aðrar pestir og drápust. Indjánarnir sögðu að „bláa konan“ hefði fært þeim uppskrift að kássu sem prestar á svæðinu (nú Texas) kölluðu Djöflasúpu. Þetta var chilli con carne. Þrátt fyrir að prestarnir legðust eindregið gegn þessum sterka mat og héldu heilu messurnar gegn honum, dugði slíkt ekki til. Kaþólska kirkjan hefur fyrr og síðar oftast verið á móti lífsins lystisemdum í mat og kynlífi, a.m.k. fyrir almenning, þótt þjónar kirkjunnar hafi á stundum verið undanþegnir slíkum kvöðum.
Í bandarísku borgarastyrjöldinni kynntust fölir drengir úr Norðurríkjunum, flestir af breskum, írskum og þýskum uppruna, sem ekki áttu að venjast bragðmiklum mat, chilli con carne og eftir það varð rétturinn þekktur um öll Bandaríkin. Hann er nú þjóðarréttur Texasfylkis og gildir sérstök þingályktun um slíkt.
Samþykkt fylkisþingsins frá 1977 um það mál hljóðar svo:
WHEREAS, One cannot be a true son or daughter of this state without having his taste buds tingle at the thought of the treat that is real, honest-to-goodness, unadulterated Texas chili; and
WHEREAS, Texans continue today the tradition begun in San Antonio 140 years ago of making the best and only authentic concoction of this piquant delicacy; and
WHEREAS, President Lyndon B. Johnson commented that „chili concocted outside of Texas is a weak, apologetic imitation of the real thing,“ and Will Rogers described Texas chili as „the bowl of blessedness“; and
WHEREAS, Texas has been the site of the annual International Chili Cook-Off since 1967 and is the home of the 1976 World Champion Chili Cooker, Albert Agnor, of Marshall; and
WHEREAS, It is customary for the legislature to designate certain state emblems in recognition of this state’s great heritage and rich resources; and
WHEREAS, The beauty of Texas trees and flowers is represented by the pecan and bluebonnet and the mockingbird is emblematic of our abundant and varied wildlife, but the internationally esteemed cuisine of this great state had received no official recognition and has no official symbol; now, therefore, be it
RESOLVED by the House of Representatives of the State of Texas, the Senate concurring, That the 65th Legislature in recognition of the fact that the only real „bowl of red“ is that prepared by Texans, hereby proclaims chili as the „State Dish of Texas.“
Læt þessu blaðri lokið með hinstu orðum hins fræga útlaga Billy the kid: „Wish I had time for just one more bowl of chili.“
Innihald:
250 gr. nautagúllas og 250 gr. hreint nautahakk
1 dós kjúklingabaunir
1 dós nýrnabaunir
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2-3 sellerístilkar
hálf púrra
3-4 gulrætur
3 sneiðar beikon
hálf chorizopylsa
1 dós niðursoðnir tómatar (heilir)
1 dós niðursoðin tómatsósa
1 lítil dós tómatpúrra
1 stór eða 2 litlir rauðir piparávextir
1 kanilstöng
¼ bolli balsamik edik
1 ½ lítri kálfa-, grænmetis- eða kjúklingasoð
1 teskeið chilliduft
1 teskeið cumin
1 teskeið reykt paprika
1 teskeið þurrkað oregano
1 teskeið þurrkuð basilikka
smá cayennepipar
1 búnt kóríander
50 gr. gott dökkt súkkulaði (ef vill)
Saxið laukinn, púrruna, selleríið og gulræturnar frekar gróft og steikið í góðri ólífuolíu í þykkbotna potti ásamt rauða piparnum, fræhreinsuðum og smátt söxuðum… svissið vel og látið svo hvítlaukinn smátt saxaðan út í og steikið aðeins áfram… setjið síðan kryddið allt út í og hrærið saman… takið af pönnunni og setjið til hliðar.
Bætið olíu á pönnuna og brúnið kjötið vel og fallega ásamt beikoninu smátt söxuðu og pyslunni í þunnum sneiðum (munið að plokka plastið af ef slíkt er utan um umrædda pyslu). Plokkið blöðin af kóríandernum og saxið stilkana og bætið við kjötið og blandið steikta grænmetinu saman við. Hellið tómötunum yfir (niðursoðnum, sósu og púrru) ásamt baununum sem þið hafið áður látið leka af í sigti. Balsamik út í og soðið. Nú er rétti tíminn til að bæta út í súkkulaðinu ef ykkur finnst súkkulaði gott… annars bara látið þið það vera!
Látið svo sjóða við vægan hita í 2 tíma og stráið kóríandernum yfir. Snæðið með kraftmiklu rauðvíni, soðnum hrísgrónum og góðu hvítlauksbrauði, gjarnan á köldu kvöldi í góðra vina hópi!