Vikuviðtalið: Bragi Þór Thoroddsen

Ég heiti Bragi Þór Thoroddsen og er fæddur í Reykjavík 7. október 1971. Ég er einn fjögurra bræðra, sonur hjónanna Úlfars B. Thoroddsen frá Patreksfirði og Helgu Bjarnadóttur frá Litlu-Eyri, Bíldudal. Ég er giftur Selmu Guðmundsdóttur, sem er menntaður leikskólakennari sem starfar sem listamaður. Við eigum tvo syni, Guðmund Agnar ´01og Úlfar ´06, en ég fyrir Jóhann Úlfar ´92 sem við eigum þó að jöfnu.

Ég bjó fyrstu æviárin í Reykjavík en flutti með fjölskyldu minni til Patreksfjarðar að ég held 1974 eða 1975. Fyrstu árin á Patreksfirði bjuggum við á neðri hæðinni í Urðargötu 23 sem stendur beint fyrir ofan höfnina, sem hafði snemma aðdráttarafl fyrir strák í sjávarþorpi. Á þessum tíma var fjöldi stórra vertíðabáta og á tíma tveir togarar auk líflegrar smábátaútgerðar sem hefur einkennt Patreksfjörð lengi. Það var fram að tíma Verbúðarinnar. Með fyrstu minningum mínum á Patró er frá róló (sem síðar varð leikskólinn Araklettur) en þar vann Helga mamma mín stóran hluta ævistarfs síns.

Fyrstu skólaárin mín var óvenju stór árgangur á Patreksfirði, árgangur´71. Okkur var skipt upp í tvo bekki fram á efstu árin í grunnskóla, en við vorum 33 eða 34 þegar best lét. Ég var hlérægur og frekar feiminn sem barn og skólinn var oft áskorun, enda gekk sitthvað á í okkar ágæta þorpi. Áhugaverðir krakkar, kennarar og starfsfólk í skólanum sem jafnan hafa áhrif á það hvert leið okkar liggur í lífinu. Og minningarnar eru flestar ljúfar frá þessum tíma þó annað hafi markað á annan hátt. En mér gekk alltaf vel í námi þó áhuginn væri út og suður. Ég var dundari, teiknaði og las, en hafði auk þess áhuga á öllu náttúrutengdu og ekki síst veiðiskap. Eyddi drjúgum hluta af uppvaxtarárunum með veiðistöng um allar fjörur Patreksfjarðar og þar sem því var við komið. Það er eitthvað sem hefur lítið elst af mér þó auðvitað sinni ég því minna í dag. Við vorum sannkallaðir púkar á Patró, enda vinahópurinn kannski á tíðum full uppátækjasamur og frjór í hugsun. Sumt fyrirgefið, annað fyrnt, en sjaldnast illa meint.

Og þar sem mamma var frá Litlu-Eyri í Bíldudal og enn var stundaður búskapur fram á 9. áratuginn fór ég talsvert “norður” til ömmu, Vigdísar Guðrúnar Finnbogadóttur. Lærði þar flest sem tengist bústörfum og var alveg til í að verða bóndi. Í kring um fermingu hafði ég til nokkurra ára ekið dráttarvélum og fleiri ökutækjum, stundað veiðar með byssu og aflífað skepnur, sprautað, markað, slegið og hirt dún og annað sem tengist búskap. Og jafnvel skroppið á grásleppu örskotsstund frá sauðburði enda skipti ekki öllu hvort var dagur eða nótt. Eftirmynnilegast er sennilega eggjaferð upp í stóra gilið í Byltunni í Bíldudal með móðurbróður mínum. Hef oft velt þessu fyrir mér þegar ég horfi á þetta tignarlega fjall.

Eftir grunnskóla fór ég í Menntaskólann á Akureyri enda tókum við þar sameiginlega ákvörðun, ég og æskuvinur minn frá Urðargötu 23. Við vorum þó meira uppteknir af öðru en skóla eins og hendir. Ég ákvað að skipta um gír og fór í Fjölbrautaskólann á Akranesi. Ég útskrifaðist ekki þaðan en árið 1992 fæddist elsti sonur minn. Þetta sama ár kynntist ég eiginkonu minni og gaf henni einn strák í forgjöf. Við ákváðum fljótlega að fara vestur á Patreksfjörð þar sem ég fór að starfa við fiskeldi í Tálknafirði. Selma var þá í námi í KHÍ (áður Leikskólaskor). Þar bjuggum við, fyrst á Patreksfirði, en síðar í Tálknafirði. Ég hafði mikinn áhuga á eldinu og þeirri atvinnugrein sem var þá í þróun, aðallega í landeldi. Hafði m.a. með höndum að klekja út, að ég held, fyrsta árgangi af norskum stofni eldislax. Þetta voru alls 87 lítrar af hrognum sem mættu á Sveinseyri í frauðkössum og skiluðu 480 000 seiðum ef ég man rétt. En saga fiskeldis á þessum árum var meira tímabundin, enda fóru flest þessara fyrirtækja í þrot og sá ég ekki framtíð í því að mennta mig frekar í fræðunum.

Næst lá leiðin á höfnina á Patró þar sem ég starfaði við fiskmarkað, en ég hafði á unglingsárum starfað í saltfiskverkun í flestum húsum við höfnina. Af bryggjunni ákvað ég að halda til hafs… réð mig á línubeitningarvél á Tjaldi SH-270 frá Rifi í maí 1998 og fluttum við Selma að Ásbraut í Kópavogi sama ár. Var lögskráður á skipið rétt um 300 daga á ári frá 1998 – 2001 og var því afar lítið heima. Mér fannst þetta minn vettvangur enda úrvals áhöfn og mikill hasar inn á milli. Fékk þó þá flugu í höfuðið að fara og ljúka námi enda sá ég ekki fyrir mér að verða 67 ára á línubeitningarvél enda vinnutíminn að jafnaði 360 klst. fyrir 30 daga á línunni. Kláraði stúdent frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla og skráði mig í lagadeild HÍ sama haust og eldri sonur okkar Selmu fæddist. Þetta var nokkuð harður tími, enda var ég á sjó og vann aðra vinnu meðfram laganáminu. Ég útskrifaðist úr lagadeildinni 2009.

Í Kópavogi er gott að búa líkt og fyrrum bæjarstjóri gerði ódauðlegt. Og það eru orð að sönnu enda er þetta frábært bæjarfélag. Ég lét til leiðast að taka að mér nefndarstörf í Kópavogi eftir að hafa haft afskipti af skólamálum og var þar skipaður sem formaður skólanefndar og sem formaður barnaverndar í Kópavogi og sinnti í nokkur ár. Fékk talsverða innsýn í stjórnsýslu og pólitík og var það mikil reynsla fyrir nýútskrifaðan lögfræðing. Samhliða þessu var ég lögfræðingur hjá Sjúkratryggingum Íslands og síðar Útlendingastofnun. Báðir staðir hafa mótað mig mikið í starfi, enda nokkuð þungir vinnustaðir báðir. Samhliða starfi hjá Sjúkratryggingum var ég að vinna lögfræðistörf með lögmannsstofum á höfuðborgarsvæðinu og öðlaðist, að ég held, ómetanlega reynslu af margs konar verkefnum. Ég sagði mig frá formennsku í barnaverndinni þegar ég hóf störf fyrir Útlendingastofnun 2016 til að fyrirbyggja faglega árekstra.

Ég hef alla tíð haft taugar til bæði Patreksfjarðar og Bíldudals og finnst ég heima á báðum stöðum. Og til þess að setja í samhengi bjó ég og starfaði líka í Tálknafirði í nokkur ár. Vann þá við fiskeldi á Sveinseyri eftir að hafa tekið ákvörðun árið 1992 að hætta námi, enda fæddist elsti sonur minn það ár. Alla tíð þótti mér erfið umræðan um Vestfirði og vandræðagang framkvæmdasýslu og fjárveitingarvalds í því að halda byggðinni tengdri við rafmagn, fjarskipti og í samgöngum og ekki síður varðandi veitingu heilbrigðisþjónustu. Hef alltaf verið meðvirkur með Vestfjörðum þegar á móti blæs. Lét til leiðast og hafði afskipti með öðrum af endalausri Teigskógsdeilunni svo eitthvað sé nefnt, þá búsettur í Kópavogi. Um svipað leyti gerjaðist hjá mér áhugi á því að leggja þessum landshluta eitthvað lið og sá helst grundvöll í því gegnum starf sveitar- eða bæjarstjóri. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2018 fór ég að sækja um stöðu á Vestfjörðum á þessum vettvangi. En mitt hlutskipti var að verða í 2. sæti umsækjenda í þremur af þessum (þá 9) sveitarfélögum; Reykhólahreppi, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi (já, sem betur fer er til betra fólk en ég). Eftir áskorun ágætrar manneskju sótti ég um starf sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, en þangað hafði ég komið einu sinni. Eftirleikurinn er sá að ég var ráðinn til starfa og hef verið sveitarstjóri Súðavíkurhrepps frá maí 2019.

Einn af styrkleikum mínum og jafnframt veikleikum er að helga sig starfi nokkuð djúpt. Ég hef haft áhuga á sveitarstjórnarmálum frá því ég komst til einhvers vits, enda gegndi Úlfar faðir minn slíku starfi til 16 ára á Patreksfirði og auk þess í 4 ár sem forseti bæjarstjórnar. Ég hef áhuga á fólki þó ég geti verið ansi “introvert”. Ég brenn fyrir því að koma einhverju til leiðar og hafa afskipti af málum þar sem mér finnst réttlæti víkja fyrir skilningsleysi og skrifræði og jafnvel embættismannaræði. Mér hefur lærst í starfi sem lögfræðingur í stjórnsýslu (og á tíðum með aðkomu að dómsmálum) að virðing fyrir viðfangsefni og ekki síst persónum og leikendum er lykillinn að því að ganga sáttur frá borði. Sumt af þessari ástríðu minni endurspeglaðist í því að hrinda áformum ráðuneyta á að þvinga sveitarfélög til sameiningar með lagasetningu. Ólög eru alltaf til vansa og rétt er alltaf rétt, rangt er rangt og þetta ögraði öllu því sem ég stend fyrir og er. Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Þetta eru orð að sönnu og sígild.

Þegar ég er ekki að vinna þykir mér vænst um samveru með fjölskyldunni minni og passlegri útivist og hreyfingu. Ég er mikill hundamaður og virði þessar ferfættu elskur meira en margt í jarðlífinu. Bestu stundir við veiðar voru með hund sem ég átti sem fór með mér til rjúpna, í gæs og andarveiðar og hélt mér sem betri manni. Ég er ennþá litli strákurinn með veiðistöngina vestur á fjörðum þegar ég á þess kost, fer í gönguferðir og reyni að veiða mér og mínum eitthvað af villbráð. Úr slíkum ferðum er einnig dýrmæt samvera við fólk sem deilir með þér skoðun á þeim vettvangi eða öðrum. Ég hef að sjálfsögðu lesti líkt og að telja mig vita allt best og nálgast viðfangsefni af hroka, en vonandi hefur mér eitthvað lærst í þeim efnum. Og þegar svo ber undir, það er allt vel meint, ég er bara ekki fullkomnari en þetta þó ég … viti betur. En ég er vel giftur og skynsemi fæ ég stundum að láni frá mínum betri helmingi þegar ég er að fara út af sporinu.

Veruleiki okkar er fjölmenning og innsýn í þau efni er ómetanleg frá sjónarhorni Útlendingastofnunar. Fjöldi hælisleitenda og flóttafólks upplýsir takmörkun okkar á innviðum og getu til inngildingar fólks sem við tökum á móti á þessum vettvangi. Og ekki síst þegar kemur að tungumálinu okkar og samskiptum. Við getum gert svo miklu betur, getum veitt fólki betra líf sem hér auðgar okkar mannlíf og mætum þeim stolt með tungumál og menningu sem vert er að deila. Ég brenn fyrir úrbótum og einföldum á leikreglum í málaflokknum sem er orðið frekar aðkallandi á þessu herrans ári.

Fyrirgefið langlokuna, en þetta er einn af mínum löstum.

DEILA