Vesturbyggð: laun bæjarstjóra 1,9 m.kr. á mánuði

Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur staðfest ráðningarsamning við Gerði Björk Sveinsdóttur, nýráðinn bæjarstjóra.

Hún er ráðin til fyrsta fundar bæjarstjórnar eftir næstu bæjarstjórnarkosningar sem verða 2026. Fram að því er þriggja mánaða gagnkvæmur uppsagnarfrestur. Verði Gerður ekki endurráðin fær hún þriggja mánaða biðlaun. Gerður getur gengið aftur inn í fyrra starf sitt sem sviðsstjóri hjá Vesturbyggð.

Föst mánaðalaun verða 1.924.583 kr. á mánuði. Tvisvar á ári taka þau breytingum í samræmi við breytingar á launavísitölu. Greiddur er fastur bifreiðastyrkur 900 km á mánuði í samræmi við ákvörðun ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Frá 1. maí 2023 eru greiddar 141 kr. fyrir hvern km. sem gera 126.900 kr. á mánuði fyrir 900 km.

Bæjarstjóri fær farsíma og fartölvu og greiðir sveitarfélagið fyrir notkunina og nettenginuna. Við starfslok verður farsíminn eign Gerðar en hún skilar tölvunni.

DEILA