Vestri: 2. sigurinn hjá kvennaliðinu

Kvennalið Vestra á æfingu. Mynd: Vestri.

Kvennalið Vestra, sem tekur þátt í 2. deild í knattspyrnu, sótti sinn annan sigur í deildinni í gær þegar þær lögði Einherja frá Vopnafirði að velli 2:1 á Kerecis vellinum á Ísafirði. Austfirðingarnir tefla fram sterku liði og er það í 4. sæti í deildinni. Þær byrjuðu betur og tóku forystuna snemma leiks. Í síðari hálfleik jöfnuðu Vestra stúlkurnar með marki frá Láru Ósk Albertsdóttur og skömmu fyrir leikslok gerði Dagmar Pálsdóttir sigurmarkið fyrir Vestra.

Júlímánuður hefur verið góður fyrir Vestra, fyrsti sigurinn kom á Kerecis vellinum fyrir hálfum mánuði og var það gegn Álftanesi og svo jafntefli við Völsung frá Húsavík.

Vestri er nú í 12. sæti með 8 stig og hafa þau öll unnist á heimavelli. Eftir strembna byrjun er Vestri komið upp úr botnsætinu og í hóp fjögurra liða og gæti þær með einum sigri skotist upp í 9. sætið nú þegar mótið er hálfnað.

Tap hjá körlunum

Vestri karlalið lék einnig á Kerecis vellinum í Bestu deildinni og fékk FH í heimsókn. Hafnfirðingarnir eru í 4. sæti í deildinni og eitt af toppliðunum. Engu að síður áttu Vestfirðingarnir í fullu tré við FH, sérstaklega í fyrri hálfleik. Undir lok leiksins náðu Hafnfirðingarnir að gera tvö mörk og fóru með sigur af hólmi. Eftir að FH hafði tekið forystuna átti Vestri gott skot að marki og hefði jafnað leikinn en markvörður Hafnfirðinganna átti góða markvörslu og kom í veg fyrir það.

Það er frekar súrt í brotið fyrir Vestra að vera tómhentir eftir þennan leik.

Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra sagði eftir leikinn í viðtali við fótbolti.net að fyrri hálfleikur hefði verið einn besti hálfleikur Vestra í sumar og heilt yfir mjög góður leikur hjá liðinu. Hann sagði að stundum falli hlutirnir ekki með Vestra og sagði markvörslu FH í lokin hafa verið á heimsmælikvarða.

Vestri er áfram í 11. sæti með 12 stig í Bestu deildinni.

DEILA