Vestfjarðastofa: verið að svíkja ítrekuð loforð

Vegurinn um Ódrjúgsháls á vondum degi. Mynd: RUV.

Stjórn Vestfjarðastofu hefur sent frá sér harðorða ályktun um frestun samgönguframkvæmda á Vestfjörðum. Í ályktuninni segir að stjórn Vestfjarðastofu lýsi miklum vonbrigðum með þá stöðu sem komin er upp í samgönguframkvæmdum í fjórðungnum.

„Verið er að svíkja ítrekuð loforð ráðherra og þingmanna um að þær nýframkvæmdir sem eiga nú að vera á lokastigi framkvæmda í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði kláraðar eins fljótt og mögulegt er.“

Tilefni ályktunarinnar er að ný liggur fyrir að vegna fjárskorts verða ekki boðnir út lokaáfangar framkvæmda á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit. Virðist það vera vegna þess að fjármagn hafi verið fært í framkvæmdir við brúargerð yfir Hornafjarðarfljót. Vegagerðin hafði áður gefið út að á þessu ári boðið yrði út brúargerðin í Gufudalssveit en óvíst væri með Dynjandisheiðina.

Stjórn Vestfjarðastofu minnir er á að í samþykkt Alþingis um breytingar á samgönguáætlun 2021, átti framkvæmdum að ljúka í Gufudalssveit á árinu 2024 og á Dynjandisheiði 2025.

„Endurskoða varð þessi áform með vísan til hækkunar kostnaðar og aukinna öryggiskrafna og í framhaldinu voru sett fram loforð um að um samhangandi framkvæmdir yrði að ræða og við það hefur verið staðið þar til á þessu ári. Ljóst er því að óbreyttu, munu gríðarlegar framkvæmdir síðustu ára ekki koma til með að nýtast þar sem enn eru erfiðir kaflar sem tefja og hamla för.“

Stjórn Vestfjarðastofu beinir því til Alþingis, ríkisstjórnarinnar og Vegagerðarinnar að tryggja að unnið verði eftir gildandi samgönguáætlun og verkefni í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði verði boðin út strax í sumar.

DEILA