Vestfirðir: allt að 85% í hvalaskoðun frá skemmtiferðaskipum

Á laugardaginn voru þrjú erlend skemmtiferðaskip á Ísafirði, þar af tvö við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Cruise Iceland segir að ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi njóti mörg aukinna tekna vegna heimsókna skemmtiferðaskipa til landsins. Þar sem skipin leggist að bryggju skapist tækifæri fyrir staðbundna atvinnuþróun og efnahagsvöxt, eins og sýndi sig í skýrslu Reykjavík Economics sem unnin var í samstarfi við Faxaflóahafnir og aðra hagaðila. Skýrslan leiddi í ljós öflug efnahagsáhrif skemmtiferðaskipa og að þeir sem ferðast með þeim eyða töluvert hærri fjárhæðum í landi yfir styttri tímabil en áður var talið.

Fyrir skömmu birtist frétt á Akureyri.net þar sem Sara Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri Whale Watching, greinir frá því að sumarið hafi verið gjöfult hjá fyrirtækinu. Innan fréttar er sérstaklega minnst á að þegar skemmtiferðaskipin koma til landsins er þörf á að fjölga ferðum hjá fyrirtækinu og telur framkvæmdastjórinn að rúmlega helmingur viðskiptavina þeirra í sumar komi af skemmtiferðarskipunum, sem er gríðarleg tekjuaukning fyrir hvalaskoðunarfyrirtækin.

Jón Auðun Auðunarson, framkvæmdastjóri Vesturferða, aðildarfélags Cruise Iceland, tekur undir það sem fram kemur í fréttinni:
“Þetta er okkar upplifun líka. Örugglega 85% af farþegum í hvalaskoðun koma frá skemmtiferðaskipum. Ég set ekki einu sinni inn brottför í hvalaskoðun þegar það er ekki skip í höfn. Það svarar ekki kostnaði að fara af stað með 2-4 farþega sem koma keyrandi til Ísafjarðar,“ segir Jón Auðunn og vísar þar í hversu mikil hagkvæmni felst í að einblína á þjónustu við þennan ferðamannahóp.

Ferðaþjónustan á Ísafirði er háð farþegum skemmtiferðaskipa
Jón Auðun telur ferðaþjónustuna á Ísafirði vera mjög háða skemmtiferðaskipum þar sem Ísafjörður er ekki á þjóðvegi 1 og keyrandi ferðamenn skauta oftast framhjá Vestfjörðum, sem sé auðvitað miður því landshlutinn hafi upp á mikið upp á að bjóða. Hann segir jafnframt að fyrirtækið eigi erfitt með að vera með reglulegar brottfarir í hvalaskoðunum yfir sumarið, enda séu þær núna sérsniðnar eftir komu og brottfaratíma skipa. Þetta fyrirkomulag reynist töluvert betur eins og áður sagði. Jón Auðunn bætir við: „Framkvæmdastjóri hjá Eldingu á Akureyri áætlaði að hlutfallið væri í kringum 50% í hvalaskoðun. Þetta sýnir enn og aftur hversu mikilvæg skemmtiferðaskip eru fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Skipin skilja eftir miklar tekjur fyrir samfélagið – Það er bara staðreynd þótt að margir reyna að halda öðru fram.“

DEILA