Veiðitímabil rjúpu 2024

Umhverfisstofnun hefur sent inn veiðistjórnunartillögur fyrir rjúpu árið 2024 til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis.

Samkvæmt drögum að nýrri stjórnunar og verndaráætlun rjúpu skulu veiðidagar vera heilir og veiði hefjast fyrsta föstudag á eða eftir 20. október.

Veiði er heimil frá og með föstudegi til og með þriðjudags innan tímabilsins. Því er óleyfilegt að veiða rjúpu miðvikudaga og fimmtudaga. 

Niðurstöður fjölþátta stofnlíkana (IPM) um hámarksfjölda veiðidaga og tillögur Umhverfisstofnunar að fjölda veiðidaga (veiðitímabili) eru eftirfarandi: 

Austurland:    45(25. okt – 22. des) 
Norðausturland:     20 (25. okt – 19. nóv)
Norðvesturland:     20 (25. okt – 19. nóv)
Suðurland:      20 (25. okt – 19. nóv)
Vesturland:      20 (25. okt – 19. nóv)
Vestfirðir:      25 (25. okt – 26. nóv)

Tillögurnar eru byggðar á nýjum samþættum stofnlíkönum sem hafa verið þróuð samhliða stjórnunar- og verndaráætluninni af Dr. Fred Johnson, bandarískum sérfræðingi í stofnlíkanagerð og veiðistjórnun. Áætlunin er afurð samstarfs viðeigandi hagsmunaaðila og í henni er nýtt veiðistjórnunarkerfi kynnt.

Í nýja veiðistjórnunarkerfinu er landinu skipt upp í sex svæði. (sjá mynd). Veiðitímabil hvers svæðis er ekki háð öðrum svæðum heldur stjórnast af ástandi stofnsins innan svæðisins.

DEILA