Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út í neyðarflug í gær til þess að sækja erlendan ferðamann í Jökulfjörðum. Maðurinn var fluttur til Ísafjarðar til frekari skoðunar.
Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða staðfestir í samtali við Bæjarins besta að stofnunin hafi enga aðkomu að þessu máli, maðurinn hafi ekki komið þangað.
Hreggviður Símonarson, starfsmaður á bakvakt aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar segir Bæjarins besta að Landhelgisgæslan hafi skilað manninum í sjúkrabíl á Ísafirði og að hann hafi ekki hafi verið stórvægilega slasaður.
Samkvæmt heimildum Bæjarins besta ók maðurinn í burtu frá flugvellinum í bíl sem hann geymdi þar. Það hefur ekki fengist staðfest.