Söngvaskáldið Una Torfa er fædd árið 2000. Una semur og spilar ljúfsár lög á íslensku um ástina og lífið og gaf hún út sína fyrstu plötu í júní árið 2022. Textar Unu eru fjölbreyttir og taka á ýmsum hliðum margslunginna tilfinninga. Hún fangar nákvæmar tilfinningar og kemur þeim í orð, finnur lítil augnablik og hverfular hugmyndir og festir þær í textum.
Una gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, Sundurlaus samtöl. „Þessi plata er full af lögum sem ég hef átt lengi og spilað oft. Að vissu leyti er ég að reyna að heiðra nokkrar fortíðar útgáfur af sjálfri mér.”
Una ferðast nú um landið með gítarleikaranum og kærasta sínum, Hafsteini Þráinssyni, og flytja plötuna í einföldum og fallegum búningi.
„Draumurinn er að Sundurlaus samtöl fái að lifa góðu lífi og festa rætur. Ég opnaði dagbókina og hjartað og ég vona svo innilega að vangaveltur unglings-Unu og mínar og allra sem hjálpuðu mér og henni rati á rétta staði.”