Umhverfisstofnun kærir leyfi til laxavinnslu á Vestfjörðum

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Umhverfisstofnun hefur kært til Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins starfsleyfi sem Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða hefur gefið út til Drimlu laxasláturhúss í Bolungavík. Telur Umhverfisstofnun að það heyri undir stofnunina að gefa út starfsleyfið vegna umfangs starfseminnar. Telur Umhverfisstofnun að Drimla sé með ógilt starfsleyfi í höndunum.

Þessu er Heilbrigðisnefnd Vestfjarða ósammála. Í Drimlu fari ekki fram meðferð eða vinnsla á fiski. Fiskurinn sé undirbúinn undir flutning, hann kældur, tekið innan úr honum, stærðarflokkaður og ísaður í kassa til flutnings.

Í fundargerð nefndarinnar frá síðustu viku segir að þessi túlkun á lögum 7/1998 sé nýmæli hjá Umhverfisstofnun, því hingað til „hafa allar fiskvinnslur og aðrar ótaldar fiskvinnslur verið undir eftirliti heilbrigðisnefnda og vinna samkvæmt starfsleyfum og skráningum.“

Jafnframt segir í bréfi Heilbrigðiseftirlitsins til ráðuneytisins vegna kærunnar að heill fiskur ísaður í kassa teljist ekki vera vinnsla. Í skilningi matvælareglugerðar EB sé meðferð og vinnsla þegar verið er að flaka, fletja, salta, reykja, þurrka, frysta o.s.frv., þ.e. búa til eitthvað úr hráefninu sem er heill fiskur.

Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis hefur gefið út tvö starfsleyfi vegna slátrunar og pökkunar á laxi. Annars vegar vegna til Arnarlax ehf á Bíldudal og hinsvegar til Arctic Oddi Drimla í Bolungarvík, bæði með vísan í starfsleyfisskilyrði fyrir fiskvinnslur. Starfsleyfið til Arnarlax var fyrst gefið út 2015 og seinna leyfið í febrúar 2023.

Bæði starfsleyfin fyrir Arnarlax ehf og Drimlu í Bolungarvík voru auglýst á heimasíðu heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og engar athugasemdir bárust.

DEILA