Tungumálatöfrar á Flateyri 6.-11. ágúst

Skráning er nú í fullum gangi á námskeið Tungumálatöfra sem verður haldið í sjöunda sinn þann 6.-11.ágúst og nú á Flateyri. Námskeið Tungumálatöfra eru ætluð börnum á aldrinum 5-14 ára og þá sérstaklega tvítyngdum og fjöltyngdum börnum. Kennt verður í Grunnskóla Önundarfjarðar, samkomuhúsinu og náttúrunni í kring.

Námskeiðið skiptist eins og fyrri ár í tvö námskeið: Tungumálatöfra fyrir 5-9 ára börn og Töfraútivist fyrir 10-14 ára börn.

Sú breyting er í ár að námskeiðið fyrir yngri börnin verður haldið á Flateyri, líkt og Töfraútivistin, enda að þessu sinni lögð áhersla á skapandi útivist, ásamt myndlist og tónlist.

Unnið verður með þema sem tengist hafinu þar sem börn nota hugmyndaflug sitt við listsköpun og leiki og æfa íslenskuna sína í leiðinni.

Kennarar á Tungumálatöfrum í ár verða eins og fyrri ár Dagný Arnalds og Jóngunnar Biering sem sjá um tónlistarhluta námskeiðsins. Myndlist þetta árið verður í höndum Gunnars Jónssonar sem áður hefur kennt við námskeiðið og skapandi útivist verður í höndum þeirra Kötlu Vigdísar og Baldurs Sverrissonar. Töfraútivist verður eins og fyrri ár í umsjón Sössu Eyþórsdóttur.

Í ár fer námskeiðið fram frá 6.-11 ágúst og er kennt frá 10-14 frá þriðjudegi til laugardags. Námskeiðinu lýkur sunnudaginn 11. ágúst með töfragöngu, lokahátíð og matarupplifun eins og síðustu ár en þá er fjölskyldum barnanna og öðrum gestum boðið að taka þátt.

Námskeiðið hentar bæði börnum sem búa erlendis og vilja styrkja sig í íslenskunni og tengsl sín við landið, sem og nýjum Íslendingum sem eiga annað tungumál að móðurmáli og vilja bæta íslenskukunnáttu sína. Einnig hefur undanfarin ár verið mjög góð þátttaka barna sem fædd og uppalin eru á svæðinu. Námskeiðið er þannig ekki síður mikilvægt fyrir félagsleg tengsl barna en til að læra íslenskuna. Þau öðlast sjálfstraust, styrkja sig í tungumálinu og hefur falleg vinátta orðið til sem hefur haldist í gegnum árin.

Forráðamenn eru hvattir til að sameinast um að keyra börn sín yfir til Flateyrar og nýta sér strætóferð til baka til Ísafjarðar frá Flateyri kl.15:00 virka daga. Boðið verður upp á gæslu milli kl. 14:00 og 15:00.

Eins og undanfarin ár styrkir Verk Vest sitt félagsfólk með því að niðurgreiða námskeiðsgjöldin. Eins styrkir Íslandssaga á Suðureyri sitt starfsfólk til þátttöku, líkt og Klofningur sem hefur jafnframt boðið upp á akstur á námskeiðið.

Skráning fer fram í gegnum heimasíðu Tungumálatöfra: https://tungumalatofrar.is/

Frekari upplýsingar veitir Anna Sigga verkefnastjóri í gegnum netfangið tungumalatofrar@gmail.com og í síma 6153378

Einnig er hægt að fylgjast með á facebook síðu: https://www.facebook.com/tungumalatofrarnamskeid

og á instagram: https://www.instagram.com/tungumalatofrar/

DEILA