Tálknafjörður: brúin í Smælingjadal kássufúin

Horft yfir Sveinseyri í Tálknafirði og áfram yfir fjörðinn til Lambeyrar.

Landeigendur jarðanna Lambadal og Suðureyri við vestanverðan Tálknafjörð hafa ritað bréf til bæjarráðs Vesturbyggðar og hafa lýst yfir miklum áhyggju af ástandi brúarinnar yfir ána í Smælingjadal.

Segjast þeir óttast að með aukinni umferð ár frá ári auk eigin umferðar landeigenda muni trébrú yfir ána í dalnum Smælingjadal (sem skilur jarðirnar að) gefa sig á næstunni. „Brú þessi var byggð á árunum 1960-70 úr tré og hefur tíminn nagað hressilega í hana, brúin er orðin kássufúin og eru nokkur ár síðan að dekkið í henni fékk svo litla lagfæringu en nú er svo komið að göt eru komin í þá lagfæringu og spýtur orðnar lausar og ganga til þegar ekið er yfir brúna.“

Ökumenn stærri bíla fari á vaði yfir ána en það gangi aðeins þegar vatnsbúskapur sé lítill.

„Við höfum af þessu stórar áhyggjur þar sem vitað er um mikla umferð þarna út eftir vegna ættarmóts þarna útfrá í júlí og þar sem þetta fellur undir flokkinn „styrkvegur“ þá er það sveitafélagið sem er bótaskylt hljótist tjón af brúnni.“

Sviðstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vesturbyggðar var falið að sækja um styrkvegafé til Vegagerðarinnar þegar opnað verður fyrir umsóknir.

Kort sem sýnir Tálknafjörð og Smælingjadal og utar Suðureyri.

 Rösklega einum kílómetra utan við Lambeyri er Smælingjadalur. Um dalinn fellur Smælingjdalsá og skiptir hún löndum milli Suðureyrar og Lambeyrar. Um Smælingjdal lá gönguleiðin frá Suðureyri á Patreksfjörð, yfir Lambeyrarháls og niður í Litladal sem gengur upp frá Geirseyri. 

Úr árbók Ferðafélags Íslands 1959 og Örnefnaskrár Suðureyrar og Lambeyrar.

DEILA