Takmörkun á umferð gangandi við Dynjanda

Loftmyndin sýnir takmörkun á gönguleið neðan rauða striksins

Í tengslum við framkvæmdir við uppsetningu útsýnispalla og lagfæringar á hluta göngustígs við náttúruvættið Dynjanda er ráðgert að þyrluflutningar fari fram í lok yfirstandandi viku.

Samkvæmt veðurspám mun þá opnast samfelldur veðurgluggi í 2-3 daga en undanfarið hefur reynst örðugt að stilla saman slíkum gluggum við önnur verkefni flugmanna.

Ef spár ganga eftir mun flugið hefjast á fimmtudagsmorgunn 25. júlí nk. og gert er ráð fyrir að því verði lokið í síðasta lagi um miðjan laugardag 27. júlí. Flogið verður með efni í um 240 ferðum frá Dynjandisheiði að fossaröðinni í Dynjandisá.

Til að tryggja öryggi gesta hins friðlýsta svæðis verður gönguleið meðfram Dynjandisá lokuð ofan Göngumannafoss (við útsýnispall 2) á meðan á fluginu stendur.

Annað aðgengi að svæðinu verður að mestu óbreytt, þ.m.t. aðgengi að bílastæðum, salernum og áningarsvæði á flötinni neðan fossanna.

DEILA