Strandabyggð: samið við Litla Klett vegna leikskólalóðar

Hólmavík.

Á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 12. júlí var til afgreiðslu samningur við verktakafyrirtækið Litla Klett um leikskólalóð á Hólmavík. Sveitarstjórn ákvað í september 2023 að fá Litla Klett til verksins og síðan hefur verið unnið að endurhönnun lóðarinnar.

Fram kom að minnihluti sveitarstjórnar var gagnrýninn á framvindu málsins og lagði oddviti A lista fram fyrirspurninr í 15 liðum um verkið. Oddviti svaraði spurningunum og benti á að endurhanna hafi þurft lóðina og afgreiða stjórnsýslukæru sem hefði hvort tveggja tafið málið.

Í bókun A lista sem lögð var fram segir að innkaupareglur Strandabyggðar hafi verið brotnar, breytingar á verki væri það miklar að í raun ætti að gera nýja verðfyrirspurn, forkastanlegt væri að gera ráð fyrir að það sé verið að vinna á leikskólalóð á meðan leikskóli er í gangi án öryggisgirðinga og að sveitarstjórnarmönnum A-lista finnist samningurinn sem er til afgreiðslu vera ófullnægjandi.

Í bókun oddvita segir að fyrir liggi fyrir að samþykkt var af meirihluta sveitarstjórnar í september 2023 að fá Litla Klett í þetta verkefni. „Enginn annar aðili sýndi þessu verki áhuga né gerði tilboð. Frekari verðfyrirspurn er því ekki á dagskrá. Umræða um samningsdrögin er góð og hefur útskýrt margt og leiðrétt margt og mun auðvelda frágang á endanlegum samningi. Bókun A-lista talar fyrir sig en óhjákvæmilega spyr maður sig hvort A-listinn vilji raunverulega sjá þessa framkvæmd raungerast.”

Samþykkt var með þremur atkvæðum meirihluta að verk geti hafist og samningurinn staðfestur með fyrirvara um þau atriði sem leiðrétt verða og endanlegur samningur lagður fram á fundi sveitarstjórnar þann 13. ágúst nk.

DEILA