Hafrannsóknarstofnun hefur ákveðið að takmarka eldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpinu við 12.000 tonn á ári þrátt fyrir að burðarþolsmatið heimili 30.000 tonn.
Útflutningsverðmæti á 18.000 tonna framleiðslu af eldislaxi árlega er um 20 milljarðar króna. Þessum tekjum er fórnað til þess að vernda laxastofnana í Laugardalsá og Langadalsá að viðbættri Hvannadalsá.
Um þessa ráðstöfnun má margt segja, hún er ekki byggð á merkilegri fiskifræði. Fyrir það fyrsta er laxeldið ekki hættulegt umræddum stofnum. Svo er búið að loka fyrir aðkomu óæskilegra fiska upp í árnar með svokölluðum árvökum. Ef lagt er í að hafa mann á vakt við búnaðinn þessa daga sem lax gengur upp í árnar er það alveg öruggt. Þá er hnúðlaxinn líklega meiri skaðvaldur, þótt hann blandist ekki Atlantshafslaxinum, þar sem hann hrygnir í ánum og tekur pláss og hver veit nema hann spilli hrygningu villta laxins. En árvakinn dugar líka sem vörn fyrir hnúðlaxinum.
Lítum aðeins á efnahagslegu áhrifin. Töpuðu tekjurnar liggja fyrir, þær eru um 20 milljarðar króna á hverju ári.
Hverjar eru tekjurnar af stangveiðinni, sem er verið að verja með þessari ákvörðum Hafrannsóknarstofnunar? Um það fást ekki upplýsingar hjá þeim sem hafa árnar á leigu og selja veiðileyfi í þær. Hvorki Stangveiðifélag Reykjavíkur né Starir ehf veita upplýsingar um tekjurnar. Þá eru engar upplýsingar að hafa hjá Hagstofu Íslands um stangveiðina, hvorki í Ísafjarðardjúpi né á landsvísu. Stofnunin skilar auðu þegar spurst er fyrir um þessa atvinnugrein, tekjur og gjöld.
Allt frá siðaskiptum árið 1550
En það er hægt að nálgast mögulegar tekjur með því að skoða auglýst verð á stöng í ánum. Í því mati getur verið töluverð ónákvæmni , þar sem matið verður ekki betra en upplýsingarnar sem byggt er á.
Samkvæmt fyrrliggjandi upplýsingum er selt veiðileyfi í árnar um 90 daga hverja fyrir sig. Á vefnum Veiðiheimum kemur fram að í Langadalsá eru 88 veiðidagar og 4 stangir leyfðar. Hvannadalsá er með 97 veiðidaga og 2 stangir og í Laugardalsá eru 93 veiðidagar og 2-3 stangir.
Verðið sem er auglýst í Langadalsá samsvarar 60.000 – 80.000 kr. á hverja stöng pr. dag. Samkvæmt því eru mögulegar tekjur yfir sumarið 22 – 29 m.kr. Í Hvannadalsá eru verðin um helmingur þess sem er í Langadalsá. Tekjur þar gætu því verið 5 – 7 m.kr. Loks er það Laugardalsá. Þar eru nú auglýst til sölu leyfi fyrir 3 daga á 137.500 kr. pr. stöng. Miðað við það gætu sumartekjurnar verið um 12 m.kr.
Samtals eru því ætlaðar tekjur af stangveiðinni í Ísafjarðardjúpi 39 – 48 m.kr. Meðaltalið er um 43 m.kr.
Berum því saman þessar stærðir. Til þess að verja 43 m.kr. sumartekjur er fórnað 20.000 m.kr. – á hverju einasta ári!
Stangveiðin er samkvæmt þessum áætlunum 465 ár að skila sömu tekjum og laxeldið myndi skila á hverju ári.
Ef við leikum okkur aðeins með þessar tölur. Þá hefði stangveiðin þurft að skila 43 m.kr. á hverju ári frá siðaskiptum sem voru um árið 1550 til þess að vera jafngilt einu ári af því laxeldi sem fórnað er á hverju ári í Djúpinu stangveiðinni til varnar.
Árið er 1550 – sama ár og Jón Arason var hálshöggvinn.
Er ekki verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?
Það má alveg segja það.
-k