Sögusetur íslenska hestsins

Sögusetur íslenska hestsins, sem staðsett er á Hólum í Hjaltadal, opnaði dyr sínar fyrir gestum um miðjan júní síðastliðinn. Setrinu var lokað fyrir um tveimur árum og ráðist í stefnumótunarstarf.

Hægt er að skoða sýningar safnsins fram í miðjan ágúst en opnunartími þess er frá kl. 11-17 alla daga.

Í kynningu Sögusetursins segir að sjá megi þar sýninguna Íslenski hesturinn, þar sem í boði er lifandi leiðsögn.

Um sýninguna segir meðal annars:

„Íslenski hesturinn er talinn að mestu hafa komið með landnámsmönnunum fyrir um 1150 árum síðan. Hann er oftast sagður eiga rætur sínar að rekja til Noregs og alla leið til Mongólíu en þó eru skiptar skoðanir um hvaðan hann kemur, en eðlilegt ber að teljast að hestar fá öðrum svæðum hafi blandast við þá sem komu frá Noregi.

Fyrir tæplega þúsund árum gerist það hins vegar að höfðingjar landsins ákváðu að stöðva allan frekari innflutning á hestum. Þeir sáu ofsjónum yfir að hvaða kotbóndi sem var gæti ræktað upp og eignast afburða góðan reiðhest. Góðir reiðhestar og það að vera þess umkominn að halda mikið stóð hrossa var stöðutákn á þessum tíma og að mati höfðingjanna eingöngu fyrir þá sjálfa. Þannig að þeir einfaldlega ákváðu að ekki skyldi flytja inn fleiri hesta, þeir væru jú orðnir nógu margir í landinu og þeir einfaldlega bönnuðu frekari innflutning.“

DEILA